Dalabyggð á Starfamessu

DalabyggðFréttir

Skrifstofa Dalabyggð tók þátt í Starfamessu í Borgarnesi þriðjudaginn 14. október sl.

Starfamessa er viðburður þar sem fyrirtæki, stofnanir og menntastofnanir kynna störf, starfsgreinar og menntunartækifæri fyrir nemendum grunn- og framhaldsskóla og öðrum áhugasömum. Slíkar messur hafa verið vinsælar þar sem þátttakendur geta kynnt sér framtíðarmöguleika betur, bæði varðandi nám og störf. Fyrirtæki og stofnanir nota messuna til að kynna starfsemi sína og krækja sér í „framtíðar“ starfsfólk.

Starfamessa 2025 er eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Vesturlands 2025. Markmið með Starfamessu eru m.a. að kynna fjölbreytt náms- og atvinnutækifæri á Vesturlandi, að skapa beint samtal milli nemenda og atvinnulífsins og auka þannig meðvitund um hvaða menntun og færni skiptir máli í framtíðarstörfum – með það að leiðarljósi að kveikja áhuga og varpa ljósi á möguleika framtíðarinnar.

Haldnar voru þrjár Starfamessur. Í Fjölbrautaskóla Snæfellinga (FSN) í Grundarfirði þann 30. september, Fjölbrautaskóla Vesturlands Akranes (FVA) þann 3. október og Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi (MB) þann 14. október sem Dalabyggð sótti.

Fulltrúar Dalabyggðar voru Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri, Jóhanna María Sigmundsdóttir staðgengill sveitarstjóra og Linda Guðmundsdóttir verkefnastjóri DalaAuðs.
Þau kynntu starfsemi sveitarfélagsins, Nýsköpunarsetrið, frumkvöðlaverkefni DalaAuðs ásamt möguleikum til búsetu, starfa og menntunar í Dölum. Þá voru vörur frá matvælaframleiðendum til sýnis og boðið upp á smakk frá MS. 

Dagurinn var virkilega skemmtilegur þar sem tekið var á móti áhugasömum nemendum grunn- og framhaldsskóla fyrri partinn og seinni part dagskrár var viðburðurinn opinn almenningi. 

Dalabyggð mælir svo sannarlega með því fyrir öll fyrirtæki og stofnanir sem tækifæri hafa til að sækja Starfamessu næst.

Eiríksstaðir voru á staðnum og kynntu menningartengda ferðaþjónustu.

Brot af þeim vörum sem voru til sýnis úr Dölunum. Gaman að heyra að sumir nemendur þekktu til matvæla úr Dölum s.s. osta og grænmetis.

 

Linda og Jóhanna við kynningarbás Dalabyggðar á Starfamessu í MB

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei