Fimmtudaginn 8. ágúst kl. 21 verður Már Jónsson með erindi um Árna Magnússon handritasafnara og síðan munu Steindór Andersen og Kjartan Sveinsson kveða úr rímum Áns bogsveigis. Dagskráin verður í Gyllta salnum á Laugum í Sælingsdal.
Þegar Árni Magnússon, síðar prófessor og skjalaritari konungs, innritaðist þrítugur við háskólann í Leipzig haustið 1694 lét hann færa sig til bóka sem Dalas Arnas Magnenus Isla Island, sem má útleggja með Dala-Árni sonur Magnúsar frá eynni Íslandi. Hann var Dalamaður og leit á sig sem slíkan, enda fæddur á Kvennabrekku og ólst upp í Hvammi. Hafði verið þrjá vetur í Skálholti, en annars haldið sig innan sýslumarkanna að mestu.
Í erindinu verður farið nokkrum orðum um uppvaxtarár hans en mestu rúmi varið í tengsl hans við Dalasýslu eftir að hann fluttist til Kaupmannahafnar haustið 1683. Hann var aftur í Hvammi frá vori 1685 til hausts 1686 við handritaleit á vegum húsbónda síns, Thomasar Bartholín fornfræðings Danakonungs.
Í Skálholti var hann frá vori 1702 til hausts 1712, en vann jafnframt að jarðabók og öðru fyrir konung víða um land. Áberandi er að hann fór eins oft og hann gat í Hvamm. Þar sat hann löngum við bréfaskriftir hjá séra Magnúsi bróður sínum og Sigríði Jónsdóttur konu hans, sem var systir Páls Vídalíns lögmanns, nánasta samtstarfsmanns Árna.
Í Dalasýslu náði Árni líka mörgum af sínum allra merkustu handritum, svo sem Staðarhólsbók (AM 334 fol.), Staðarfellsbók (AM 346 fol.) og Belgsdalsbók (AM), þótt ekki væru allar tiltækar skinnbækur falar, svo sem Skarðsbók postulasagna (SÁM), sem hann þó fékk að láta skrifara sína afrita.
Már Jónsson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann stundaði nám við Háskólann í Björgvin, Sorbonne-háskóla í París og Háskóla Íslands þaðan sem hann lauk doktorsprófi árið 1993. Már skrifaði ævisögu Árna Magnússonar, er kom út 1998.
Viðburðurinn er hluti af verkefninu Handritin alla leið heim, í tilefni 350 ára fæðingarafmælis Dalamannsins Árna Magnússonar handritasafnara. Á Laugum er og til sýnis í sumar eftirgerð af Staðarhólsbók rímna. Að verkefninu hér í Dölum standa Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Nýpurhyrna, Héraðsskjalasafn Dalasýslu og Byggðasafn Dalamanna. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Vesturlands, Dalabyggð, Hótel Eddu á Laugum ofl.