Erpsstaðir hlutu Landbúnaðarverðlaunin 2023

DalabyggðFréttir

Það voru hjónin á Erpsstöðum í Dalabyggð, þau Helga Elínborg Guðmundsdóttir og Þorgrímur Einar Guðbjartsson sem hlutu Landbúnaðarverðlaunin árið 2023 á Búnaðarþingi Bændasamtaka Íslands sem sett var í morgun.

Helga og Þorgrímur hafa búið á Erpsstöðum í 25 ár og alla tíð stundað búskap af bæði alúð og áhuga. Í fréttatilkynningu Bændasamtakanna kemur meðal annars fram að á þeim árum hafi þau eflt búið verulega, aukið ræktað land, fjölgað kúm og framleiðslu afurða. Auk þess að hafa stundað fjölþætta aðra starfsemi í landbúnaði. Til dæmis voru þau með fyrstu bændum sem gerðu samning við Vesturlandsskóga um skógrækt á bændabýlum. Byggt var nýtt fjós 2008 og heimavinnsla mjólkurafurða hófst árið eftir. Á Erpsstöðum er nú tekið á móti og þúsundum ferðamanna árlega sem koma í heimsókn, kynna sér íslenskan landbúnað og bragða á vörum þeirra sem framleiddar eru undir vörumerkinu Rjómabúið á Erpsstöðum. Samhliða er einnig boðið upp á gistiþjónustu á bænum.

Dalabyggð óskar Helgu og Þorgrími til hamingju með þessi verðskulduðu verðlaun!

Tilkynningu Bændasamtaka Íslands má lesa hér: Erpsstaðir hljóta landbúnaðarverðlaunin 2023

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei