Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt umræðuskjal á heimasíðu sinni um framtíðarfyrirkomulag alþjónustu varðandi þá skyldu innan alþjónustu, að útvega tengingu við almenna fjarskiptanetið.
Bókun sveitarstjórnar Dalabyggðar 15. apríl
Sveitarstjórn Dalabyggðar hvetur til þess að Póst- og fjarskiptastofnun hefjist þegar í stað handa við gerð áætlunar um ljósleiðaravæðingu landsins alls. Miðað við fyrirliggjandi gögn ætti að vera raunhæft að tengja þá 1.700 staði/lögheimili sem liggja utan svokallaðra markaðssvæða á 5 árum.
Sveitarstjórn telur að þessir staðir ættu að njóta forgangs fram yfir þéttbýlli svæði sem líkur eru til að fjarskiptafyrirtæki tengi á markaðsforsendum á næstu árum. Sveitarstjórn telur eðlilegt að sett verði kostnaðarhámörk á alþjónustuhafa, notenda og jöfnunarsjóð og að ekki sé gert ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga enda málaflokkurinn á forræði ríkisins.
Fyrir liggur að Rarik ohf. vinnur að því að koma dreifikerfi sínu í jörð og hvetur sveitarstjórn ríkisstofnanir og félög í ríkiseigu að taka höndum saman og leita hagkvæmra leiða til að koma fjarskipta- og rafmagnsmálum dreifbýlisins í gott horf svo sem með því að sameinast um lagningu jarðstrengja.