Málþing um matþörunga á vegum Matís, Hafrannsóknastofnunar og Náttúrustofu Vesturlands verður á Hótel Stykkishólmur, laugardaginn 26. febrúar 2011, kl. 13-16.
|
Markmið málþingsins er að vekja áhuga og fá fram hugmyndir að aðgerðum/verkefnum sem stuðla að framþróun í nýtingu á matþörungum hér við land. Málþingið er opið öllum, hvort sem um er að ræða fyrirtæki sem eru í vinnslu á matþörungum eða hafa hug á því, kaupendur á matþörungum eða áhugasaman almenning.
Aukins áhuga gætir hér á landi á nýtingu matþörunga en á heimsvísu er verslun og nýting þeirra mikil og sívaxandi. Þörunga má nýta beint til matargerðar og úr þeim má einnig vinna ýmsar afurðir sem nýttar eru í matvælaiðnaði, landbúnaði, iðnaði, snyrtivöruiðnaði, læknisfræði, til framleiðslu lífvirkra efna og margt fleira.
Við strendur Íslands vaxa fjölmargar tegundir þörunga og nokkrar þeirra í töluverðum mæli en nýting þeirra hefur hins vegar verið takmörkuð. Með aukinni þekkingu á vinnslu efna og matvæla úr þörungum skapast tækifæri fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem annað hvort afla þörunga eða vinna úr þeim afurðir. Mikilvægt að kanna möguleika á þróun þessarar atvinnugreinar hérlendis með það að markmiði að auka fjölbreytni atvinnulífsins og auka verðmætasköpun.
Dagskrá
Þörunganytjar á Íslandi; nýtanlegar tegundir. Karl Gunnarsson, Hafrannsóknastofnun.
Markaður fyrir matþörunga. Auðun Freyr Ingvarsson, Green in Blue.
Þörungar sem matvæli. Þóra Valsdóttir, Matís.
Hollusta, lífvirk efni í matþörungum. Rósa Jónsdóttir/Hörður Kristinsson, Matís.
Umræður.
Kynningar frá Íslenskri bláskel, Íslenskri hollustu, Þörungaverksmiðjunni, Íslenska kalkþörungafélaginu, Hafkalki, Seaweed Iceland og Gullsteini, auk þess sem Rúnar Marvinsson, matreiðslumeistari á Langaholti, sýnir hvernig nota megi matþörunga í matreiðslu.
Fundarstjóri verður Róbert A. Stefánsson, Náttúrustofu Vesturlands.