Ólafsdalsfélagið

DalabyggðFréttir

Ólafsdalur í Gilsfirði er meðal merkustu sögu- og minjastaða við Breiðafjörð. Þar hóf fyrsti bændaskóli landsins starfsemi í júní árið 1880 og var starfræktur til ársins 1907 undir stjórn frumkvöðulsins og hugsjónamannsins Torfa Bjarnasonar og Guðlaugar Zakaríasdóttur. Í Ólafsdal var mikið brautryðjendastarf unnið, ekki síst á verklega sviðinu. Merkar jarðræktarminjar í Ólafsdal frá tímum Ólafsdalsskólans eru enn að mestu óraskaðar og í búnaðarsögulegu tilliti afar merkilegar.

Í Ólafsdal stunduðu 156 piltar nám þau 27 ár sem skólinn starfaði og komu frá nær öllum sýslum landsins. Á þessum tíma voru smíðuð í Ólafsdal a.m.k. 800 stærri jarðyrkjuverkfæri, þar á meðal yfir 100 plógar og 60 hestakerrur, auk þess herfi, aktygi, hestarekur, mónafar, hjólbörur og vatnshrútar. Þá voru smíðaðir yfir 700 undirristuspaðar til að vinna á þúfum og slétta tún og gríðarlegt magn hestajárna, ljáblaða og heynála.
Ólafsdalsfélagið var stofnað í júní 2007. Þrátt fyrir lítil efni og erfitt efnahagsástand hefur ýmislegt áunnist frá því að endurreisn Ólafsdals hófst. Sumarið 2009 var fundið nýtt vatnsból, lögð vatnslögn og snyrtingum komið upp á fyrstu hæð skólahússins, jarðvegsdúkur og dren var sett umhverfis skólahúsið, nýrri rotþró komið fyrir og hafin endurhleðsla.
Vorið 2010 var tekinn í notkun 500 fermetra lífrænn matjurtagarður. Í matjurtagarðinn var notað þörungamjöl frá Reykhólum, kalk úr Arnarfirði og fiskimjöl í stað tilbúins áburðar. Mánuði síðar var farið að nýta fyrstu afurðirnar, m.a. á Hótel Eddu á Laugum í Sælingsdal. Fengu gestir Ólafsdalshátíðar 2010 að bragða á afurðunum og seldust vel.
Stærsti áfanginn til þessa náðist þó byrjun september síðastliðinn þegar rafmagn komst í Ólafsdalshúsið með kapli sem lagður var yfir Gilsfjörð, um 3 km leið. Rafmagnið er forsenda þess að koma hita í húsið og hefja í kjölfarið endurbætur innanhúss.
Á þessu ári er áformað að koma hluta aðalhæðar í endanlegt horf og hefja vinnu við endurbætur eldhúss. Þá verður lagður fyrsti áfangi fræðslustígs um bygginga-og jarðræktarminjar Ólafsdals. Stefnt er að tveggja mánaða opnun hússins, með sýningum og leiðsögn. Skoðaðir verða möguleikar á einfaldri veitingasölu á þessu ári og öflugri árið 2012, enda er gott hráefni óþrjótandi í matarkistunni Breiðafirði og sveitunum umhverfis.
Markmiðið er að Ólafsdalur stuðli að fjölbreytni í atvinnulíf í Dalabyggð, verði frumkvöðlasetur 21. aldar og tilraunastöð í sjálfbærni á ýmsum sviðum, s.s. hvað varðar ræktun, orkunýtingu og annan rekstur. Þar verði sagan um 1900 að vissu marki endurvakin með lifandi menningarferðaþjónustu, fjölbreyttum námskeiðum og sýningahaldi. Áform eru um að fjósinu hlaðna verði breytt í fjölnota menningarhús og vatnshúsið, smiðjan og tóvinnuhúsið rísi á ný. Vonandi verður öllu þessu lokið á 140 ára afmæli Ólafsdalsskólans árið 2020.
Félagar í Ólafsdalsfélaginu eru nú um 230 og fer stöðugt fjölgandi. Um 30 þeirra búa í Dalabyggð oger félaginu mjög í mun að þeim fjölgi, en ekki má gleyma fyrra starfi Dalamanna við endurbætur hússins að utan fyrir ríflega 10 árum. Stuðningur félaga er ómetanlegur og félagsgjöldin hafa talsvert að segja við fjármögnun framkvæmda. En það er ekki síst hugurinn og velviljinn sem hvetur stjórn félagsins áfram.
Hvetjum við því alla til að ganga í Ólafsdalsfélagið og safna fleiri félögum. Hægt er aðtilkynna nýja félagaá netfangið olafsdalur@olafsdalur.is eða hafa samband við stjórnarmenn heima í héraði; Ingveldi í Stórholti eða Höllu í Ytri-Fagradal. Árgjaldið er 5.000 kr og makaafsláttur er 50% (2.500 kr).
Velkominn í Ólafsdalsfélagið – við þurfum á þér að halda!
Rögnvaldur Guðmundsson, formaður

Heimasíða Ólafsdalsfélagsins

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei