Ljósmynd: Sigmundur Geir Sigmundsson

Gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu Dalabyggðar árin 2024 til 2027

DalabyggðFréttir

Fjárhagsáætlun Dalabyggðar fyrir árin 2024-2027 var lögð fram til síðari umræðu í sveitarstjórn og
samþykkt einróma fimmtudaginn 7. desember 2023.

Áætluð rekstrarniðurstaða samstæðunnar (A og B hluta) árið 2024 er jákvæð um 85,9 milljónir króna. Nýjasta útkomuspá fyrir árið 2023 gerir ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 63 milljónir króna á árinu 2023 þannig að áfram er haldið á sömu braut með sjálfbærni reksturs sveitarfélagsins að leiðarljósi. Heildarvelta Dalabyggðar er áætluð 1.195,4 millj.kr. á árinu 2024 og lækkar á milli ára vegna þess að rekstur öldrunraheimilisins Silfurtúns verður ekki lengur á herðum Dalabyggðar.

Líkt og áður fer stærstur hluti útgjalda sveitarfélagsins til fræðslu- og uppeldismála en rúmlega 48% skatttekna Dalabyggðar renna til málaflokksins.

Útsvarsprósenta Dalabyggðar er óbreytt á milli ára, er og verður 14,74%. Gjaldskrár í Dalabyggð hækka almennt um 8% á milli ára sem er í takt við verðlagsþróun sl. 12 mánuði því verðbólga mælist nú á ársgrunni 8,0%. Því má segja að ekki sé um að ræða raunbreytingar á gjaldskrám, gjaldskrá sorphirðu/úrgangs hækkar þó um 30% en stendur þó ekki enn að fullu undir rekstrarkostnaði málaflokksins.

Sveitarstjórn ákvað að viðhalda ákvörðun sem tók gildi í ársbyrjun 2023 um að fella niður vistunargjald í leikskóla hjá elsta árgangi í leikskóla hverju sinni, svokölluðum skólahóp, stuðningur við frístundaakstur ungmenna í samstarfi við Íþróttafélagið Undra heldur sér og einnig verður boðið upp frí afnot af líkamsræktaraðstöðu fyrir elli- og örorkulífeyrisþega í samstarfi við Ungmennafélagið Ólaf Pá frá 1. janúar 2024.

Árskort á Héraðsbókasafn Dalasýslu verður áfram gjaldfrjálst á nýju ári og haldið er inni menningarmálaverkefnasjóði sem styður við menningarverkefni í heimabyggð. Þá hefur Dalabyggð verið að endurnýja ýmsa samstarfssamninga s.s. við Leikklúbb Laxdæla, Ungmennasambands Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN), Félag eldri borgara í Dölum og Reykhólahreppi og Skátafélagið Stíganda þar sem stutt er við félagsstarf og líflegt mannlíf í sveitarfélaginu. Þessar ráðstafanir m.a. sýna einbeittan vilja sveitarstjórnar Dalabyggðar til að skapa sem bestar búsetuaðstæður fyrir íbúa á öllum aldri.

Skuldahlutfall Dalabyggðar nú er aðeins 61% og útlit er fyrir að núverandi langtímaskuldir Dalabyggðar verði greiddar upp að mestu á árinu 2024. Áætlað er að skuldahlutfall sveitarfélagsins í árslok 2024 verði komið í um 120% því ný lántaka er í farvatninu því vonir standa til að langþráðar framkvæmdir við íþróttamannvirki í Búðardal hefjist á árinu 2024 sem mun hafa í för með sér nýja lántöku.

Áfram verður haldið með gatnaframkvæmdir, bæði hvað varðar íbúðagötur og eins í iðnaðarhverfi og framkvæmdum við fráveitukerfi í Búðardal verður fram haldið. Endurbætur á skólahúsnæði halda áfram og einnig er gert ráð fyrir áframhaldandi stofnframlögum til bygginga íbúða.

Markmið sveitarstjórnar Dalabyggðar er að bæta lífsgæði í sveitarfélaginu og að íbúum fjölgi á næstu árum samhliða því að sjálfbær rekstur sveitarsjóðs haldi áfram. Það eru næg verkefnin í Dalabyggð og tækifæri á hverju strái ef svo má segja og því mikilvægt að fá fleiri hendur til starfa og þátttöku í því blómlega og kröftuga samfélagi sem í Dalabyggð er.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei