Gríptu boltann

DalabyggðFréttir

Gríptu boltann er átaksverkefni RML og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Fundur um verkefnið verður haldinn í Dalabúð föstudaginn 24. ágúst kl. 13-15.

Forsvarsaðilar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, í samstarfi við RML, hafa ákveðið að hrinda af stað verkefni sem hefur það að markmiði að hvetja til nýsköpunarstarfs í sveitum. Leitast verður við að miðla þekkingu og reynslu þeirra sem þegar hafa farið af stað með nýsköpunarverkefni og styða við hugmyndavinnu og þróun verkefna frá hugmynd til raunveruleika.

Markhópur verkefnisins eru bændur á lögbýlum sem eru að velta fyrir sér sölu á hvers kyns framleiðslu eða þjónustu, hvort sem það er á sviði fullvinnslu landbúnaðarafurða eða á öðrum sviðum atvinnulífs.

Verkefninu verður hrundið af stað með fundaherferð. Í framhaldinu verður boðið upp á aðstoð ráðunauta við mótun hugmynda og við áætlanagerð og ekki síst við umsóknaferli til Framleiðnisjóðs. Áhersla verður lögð á að hvetja bændur til að hrinda úr vör hugmyndum sem mögulega hafa verið lengi í farvatninu en ekki komist til framkvæmdar.

Á fundinum verða haldnir fyrirlestrar um markmiðasetningu, reynslu fólks sem hefur ástundað vöruþróun eða tekist á við óhefðbunda atvinnuuppbyggingu á sínum jörðum, ásamt leiðbeiningum varðandi styrki þá sem leita má eftir til nýsköpunar.

Í framhaldi þessara funda stendur fundargestum sem uppfylla skilyrði Framleiðnisjóðs varðandi styrkveitingar, til boða að fá niðurgreidda aðstoð við vinnslu umsókna til sjóðsins.

Aðalfyrirlesari fundanna er Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta. Að auki verða fengnir til leiks reynsluboltar í sölu afurða beint frá býli, sem munu miðla af reynslu sinni varðandi þróun og markaðssetningu vara og þjónustu.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu RML (www.rml.is).

Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins RML

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei