Haustfagnaður FSD

DalabyggðFréttir

Árlegur haustfagnaður Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hefst með lambhrútasýningu föstudaginn 26. október kl. 12 í fjárhúsunum á Kjarlaksvöllum í Saurbæ. Til sýningar í Dalahólfi eru skráðir 58 lambhrútar frá 15 bæjum; 32 hyrndir, 13 kollóttir og 13 mislitir.

Laugardaginn 27. október kl. 10 er síðan lambhrútasýning á Skörðum í Miðdölum fyrir þann hluta sýslunnar sem er í Vesturlandshólfi. Þar eru skráðir 22 hrútar til keppni frá 7 bæjum; 10 hyrndir, 8 kollóttir og 4 mislitir.

Árleg sviðaveisla með hagyrðingum og dansleik verður föstudaginn 26. október í Dalabúð kl. 20, húsið opnar kl. 19:30. Nikkólína spilar undir borðhaldinu. Veislustjóri og stjórnandi verður Jón Kristófer Sigmarsson á Hæli. Hagyrðingar verða Helgi Björnsson á Snartarstöðum, Jóhannes Sigfússon á Gunnarsstöðum, Pétur Pétursson á Akureyri og Einar Jón Geirsson í Búðardal. Um dansleikinn sér hljómsveitin Meginstreymi.

Í reiðhöllinni í Búðardal verður fjölbreytt dagskrá frá kl. 13 á laugardaginn. Markaður, spuni,  hoppukastali, veitingar, bændaþrautabraut og að sjálfsögðu Íslandsmeistaramótið í rúningi kl. 14. Keppendur verða Arnar Freyr Þorbjarnarson, Einar Ólafsson, Guðbrandur Tumi Gíslason, Guðmundur Þór Guðmundsson, Jón Bjarnason, Rúnar Hermannsson, Steinar Haukur Kristbjörnsson og Þórður Gíslason. Þá verða og veitt sérstök verðlaun fyrir best lopaklædda gestinn og háværasta/skemmtilegasta stuðningsmanninn eða hópinn.

Grillveisla verður í Dalabúð laugardaginn 27. október kl. 18. Á matseðlinum er að sjálfsögðu lambakjöt. Niðurstöður lambhrútasýninganna verða kynntar og bestu lambhrútarnir verðlaunaðir. Bestu fimm vetra ær (fæddar 2013) sýslunnar verða verðlaunaðar. Veitt verða verðlaun í ljósmyndasamkeppni FSD.

Hefðbundinni dagskrá haustfagnaðar lýkur á dansleik með hljómsveitinni Albatross laugardaginn 27. október á miðnætti.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei