Eftir viku, eða 4.maí n.k. verður byrjað að aflétta takmörkunum sem settar voru á vegna COVID-19 heimsfaraldurs. Það er mikilvægt að við höldum áfram að passa okkur og förum áfram eftir þeim tilmælum sem enn verða í gildi svo bakslag verði ekki í faraldrinum og smit taki sig upp aftur. Varfærni og þolinmæði íbúa Dalabyggðar hefur svo sannarlega átt þátt í því hve vel sveitarfélagið kemur undan ástandinu og vert að halda í þann árangur.
Áfram þurfum við að gæta að handþvotti og sótthreinsinotkun, halda áfram að þrífa snertifleti og huga að því hvað við erum að snerta. Við skulum virða ákvörðun þeirra sem vilja áfram halda í 2ja metra regluna og leggja okkar af mörkum til þess að viðkvæmir einstaklingar geti tekið þátt í samfélaginu án þess að vera í hættu. Á sama tíma og við höfum verið að vinna að því að draga úr smitum á COVID-19 höfum við uppskorið fækkun smita á öðrum veikindum og pestum.
4.maí hækka fjöldamörk samkomubanns úr 20 í 50 manns og ýmsar stofnanir og fyrirtæki fá að opna að nýju. Þangað til höldum við áfram að fara eftir tilmælum landlæknis, sóttvarnalæknis og Almannavarna í hvívetna og aðlögum okkur svo þeim tilmælum sem hafa verið gefin út fyrir dagana eftir 4.maí.
Frétt á dalir.is um breytingar sem verða 4.maí.
Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, 21.apríl 2020.
Frétt um breyttar reglur á vef Stjórnarráðs.