Jákvæð rekstrarniðurstaða í ársreikningi 2024

DalabyggðFréttir

Ársreikningur Dalabyggðar 2024 var samþykktur við seinni umræðu á 255. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar sem haldinn var fimmtudaginn 10. apríl 2025.

Það má segja að niðurstaða ársreiknings Dalabyggðar fyrir árið 2024 sé viðunandi miðað við aðstæður. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 46,4 m.kr., og er 24,7% yfir áætlun sem gerði ráð fyrir 37,2 m.kr. jákvæðri niðurstöðu með viðaukum. Rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um 2,4 m.kr. á móti áætluðu tapi upp á 2,7 m.kr. Breyting rauntalna í rekstrarniðurstöðu A- og B-hluta milli áranna 2023 og 2024 er neikvæð um 60 m.kr. en var jákvæð um 120 m.kr. milli áranna 2022 og 2023.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2024 nam 1.060 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi og eigið fé A-hluta nam 924 m.kr. Rekstrartekjur ársins námu 1.204 m.kr. samkvæmt rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta og þarf af námu rekstrartekjur A-hluta 1.140 m.kr.

Laun og launatengd gjöld í A- og B-hluta námu 514,5 m.kr., og eru 3,3% undir áætlun, sem gerði ráð fyrir 531,9 m.kr. með viðaukum. Launahlutfall ársins var 45,1%. Heildarfjöldi starfsfólks í árslok 2024 var 56 á móti 72 í árslok 2023. Rétt er að nefna að HVE tók yfir rekstur Silfurtúns í byrjun árs 2024 og þar með fækkaði starfsfólki sveitarfélagsins sem því nam. Lífeyrisskuldbinding hækkaði um 15,2 m.kr. milli ára en gert var ráð fyrir 11,7 m.kr. hækkun og hefur það áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins líkt og síendurteknar breytingar á þessum lið hafa gert undanfarin ár.

Skuldahlutfall A- og B-hluta var 84% í árslok 2024 og skuldaviðmið var 35,1% og hefur það hækkað milli ára nú þegar framkvæmdir við íþróttamannvirki eru farnar af stað. Ljóst er að áhrif framkvæmdanna á skuldahlutfall og skuldaviðmið sveitarfélagsins eru og verða veruleg, en hvorugt hlutfallið fer upp fyrir gildandi hámark, sem er 150% á framkvæmdatíma.

Rekstur A-hluta samstæðu Dalabyggðar byggir á traustum grunni eins og hann er í dag, þó viðkvæmur sé, og þolmörk eru ekki mikil gagnvart óvæntum útgjöldum. Brugðist hefur verið við af festu gagnvart þeim þáttum sem nefndir voru við afgreiðslu ársreiknings sveitarfélagsins á fyrsta ári yfirstandandi kjörtímabils sveitarstjórnar 2022, hvað varðar B-hluta stofnanir og má þar helst nefna rekstur Silfurtúns, Dalaveitna (ljósleiðarahluta) og félagslegs húsnæðis. Með aðgerðum sem farið var í tókst að stöðva „blæðingu“ úr sjóðum Dalabyggðar sem nemur allt að 45 m.kr. árlega og treystu aðgerðirnar rekstrargrundvöll sveitarsjóðs til framtíðar sem því nemur. Einnig er það fagnaðarefni að ríkisvaldið hefur loksins samþykkt að taka yfir málefni barna með sértækan vanda 1. júní næstkomandi. Til viðbótar er rétt að nefna að létt hefur verið á eignasafni sveitarfélagsins á yfirstandandi kjörtímabili.

Þær aðgerðir sem farið var í og sá árangur sem hefur náðst í rekstri og starfsemi Dalabyggðar á undanförnum misserum og árum gerist ekki af sjálfu sér. Sveitarstjórn og starfsfólki Dalabyggðar eru hér með færðar þakkir fyrir samstarfið í kringum allar þær aðgerðir sem farið var í, sem og fyrir afar gott samstarf það sem af er kjörtímabilsins.

– Björn Bjarki Þorsteinson, sveitarstjóri.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei