Jólakveðja og fréttamoli frá verkefnastjóra DalaAuðs

SveitarstjóriFréttir

Ertu með frábæra hugmynd? Frumkvæðissjóður DalaAuðs opnar fyrir umsóknir 1. febrúar 2024.

Ákveðið hefur verið að opna fyrir umsóknir í Frumkvæðissjóð DalaAuðs 1. febrúar 2024 og verður tekið við umsóknum út febrúarmánuð. Í upphafi nýs árs er því upplagt að skrifa hugmyndir sínar á blað og undirbúa sig fyrir umsóknarferlið. Sem fyrr aðstoðar Linda Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri DalaAuðs umsækjendur og hvetjum við alla áhugasama til að hafa samband við hana. Aðsetur hennar er í Nýsköpunarsetri Dalabyggðar og netfangið linda@ssv.is

Endurskoðuð verkefnisáætlun er einnig komin í loftið. Haldinn var árlegur íbúafundur í nóvember og hafa íbúar tækifæri til að móta framgang verkefnisins á þessum fundum. Ánægjulegt var að heyra frá íbúum og margar skemmtilegar hugmyndir og ábendingar bárust á fundinum. Verkefnisstjórn DalaAuðs fór yfir ábendingarnar á dögunum og er ný áætlun komin út.

Sjá hér slóð á uppfærða áætlun: Verkefnisáætlun Útgáfa 2023

Verkefnið DalaAuður er samstarfsverkefni marga aðila þar sem landshlutasamtökin (SSV), sveitarfélagið Dalabyggð, íbúar og Byggðastofnun leggjast á eitt og vinna að þróun mála í Dalabyggð. Þetta hefur verið gott og ánægjulegt samstarf og margt unnist á þessu ári sem er að líða. Styrkir hafa fengist til að vinna að sértækum verkefnum innan Dalabyggðar. Fjölmargir íbúar hafa látið til sín taka og eflt félagslífið og mannlífið, ásamt því að gróska er í nýsköpun í Dölunum. Við þurfum að halda áfram á þessari braut og ekki síst að halda vegsemd samfélagsins á lofti. Þ.e.a.s. við þurfum að hampa okkur fyrir allt það góða sem er að gerast í samfélaginu okkar. Þannig eflist ímynd Dalabyggðar út á við og þannig trekkjum við að gesti og nýtt fólk sem hér vill búa.

Takk kærlega fyrir frábært starfsár 2023.

Með ósk um gleðileg og friðsæl jól,

Linda Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri DalaAuðs.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei