Jólakveðja sveitarstjóra

SveitarstjóriFréttir

Ágætu íbúar Dalabyggðar og aðrir vinir okkar í Dölum,

Nú þegar jólahátíðin er í þann veginn að ganga í garð og árið senn á enda þá langar mig til að stikla á stóru varðandi það sem helst hefur verið á döfinni á vettvangi Dalabyggðar á árinu 2024 og eins að koma aðeins inn á það sem er í farvatninu hjá okkur á komandi ári.

Vinnu við fjárhags- og framkvæmdaáætlunargerð fyrir árin 2025 til 2028 er nú lokið og var áætlunin afgreidd við seinni umræðu á fundi sveitarstjórnar þann 17. desember sl. Ég vil þakka öllum þeim sem komu að vinnunni, samstarfsfólki mínu, deildarstjórum og á skrifstofu Dalabyggðar, kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn og nefndum sem og þeim sem mættu á kynningarfundina kærlega fyrir samstarfið og samtalið í kringum þessa mikilvægu vinnu. Dalabyggð er nú sem fyrr sjálfbær í sínum rekstri og áætlanir okkar gefa fyrirheit um framhald á þeirri stöðu þrátt fyrir mjög metnaðarfull áform hvað varðar uppbyggingu innviða þ.m.t. uppbyggingu íþróttamannvirkja sem taka til sín allt fé sem áætlað er að óbreyttu til fjárfestinga á árunum 2025 og 2026 enda afar viðamikið verkefni og mikilvægt að vel takist til. Það er hreinlega til fyrirmyndar hvernig haldið hefur verið utan um rekstur Dalabyggðar undanfarin ár því eins langt og mín rannsóknarvinna hefur náð þá hefur ekki verið tap á rekstri Dalabyggðar a.m.k. síðan árið 2009, lengra náði mín skoðun ekki að sinni. Sýnir þessi staðreynd ábyrgð og festu og von mín og trú er að svona verði það áfram þrátt fyrir að stærsta framkvæmd Dalabyggðar frá upphafi sé í gangi og mikill sóknarhugur í samfélaginu.

Á árinu 2024 hefur ýmislegt unnist í framkvæmdum og endurbótum á eignasafni okkar og má þar nefna helst endurbætur á skólahúsnæði þar sem t.d. var málað að utan og anddyri endurnýjað, vinnu við gatnagerð, áframhald á vinnu við fráveitukerfi, lagfæringar á réttum og einstaka húseignum svo eitthvað sé nefnt. Einnig var unnið að deiliskipulagi í Búðardal á árinu og er lokið vinnu við það og komið í auglýsingaferli og vil ég hvetja íbúa til að kynna sér þau gögn vel þegar þau birtast á vef skipulagsstofnunar og á vef Dalabyggðar.

Vífill Karlsson doktor í hagfræði og fagstjóri atvinnu- og byggðaþróunarsviðs hjá SSV vann íbúakönnun landshlutanna haustið 2023 – vetur 2024, þar sem meðal annars var leitað vísbendinga um íbúalýðræði sveitarfélaga þar sem m.a. var spurt: „Hversu vel finnst þér sveitarfélagið leita eftir sjónarmiðum eða skoðunum íbúanna?“ Niðurstöðurnar voru þær að nokkur breidd var í svörum á Vesturlandi eftir sveitarfélögum en það sem var ánægjulegt að sjá er að Dalirnir standa sig best á landsvísu hvað varðar að leita eftir sjónarmiðum íbúanna skv. niðurstöðu könnunarinnar. Þannig töldu hlutfallslega fæstir þátttakenda í Dölunum sveitarfélagið standa sig illa í að leita eftir sjónarmiðum íbúanna eða um 17% og eru Dalirnir þannig lægstir á landsvísu. Íbúakönnun landshlutanna var fyrst framkvæmd á Vesturlandi 2004 en síðan verið framkvæmd á þriggja ára fresti, þetta er í annað sinn sem hún er framkvæmd á landinu öllu. Við fögnum að sjálfsögðu þessari góðu útkomu sem m.a. má þakka samráði við íbúa í tengslum við verkefnið DalaAuð og umræðu- og samráðsfundum sveitarfélagsins, svo sem í tengslum við áætlanir og stefnur. Lýðræði snýst um að valdið sé hjá fólkinu/íbúum og því er það hverju sveitarfélagi mikilvægt að bæði leita til íbúa sem og vera opið fyrir samtali við íbúa þegar eftir því er óskað. Sveitarfélögin byggja á íbúum og ánægðir íbúar skapa betra samfélag. Um leið og við leifum okkur að fagna þessum góða árangri viljum við þakka íbúum Dalabyggðar fyrir ykkar þátt í þessum árangri og þeim mikla jákvæða stíganda sem orðið hefur frá síðustu könnun. Athygli hefur vakið að Dalirnir bæta sig einnig að nokkru leyti sem vænlegur búsetukostur á milli kannana en það er líka í samræmi við marga aðra mælikvarða íbúakönnunarinnar sem hafa færst til betri vegar í Dölunum. En hér má ekki láta staðar numið og er það einlægur ásetningur okkar að halda áfram á þessari braut og byggja ofan á þá þróun sem orðið hefur.

Verkefnið DalaAuður hefur haldið áfram af fullum krafti á árinu og þann 17. október sl. var einmitt haldinn vel heppnaður íbúafundur verkefnisins. Það var gott og gaman að finna þann samhljóm og vilja til verka sem einkenndi fundinn sem er akkúrat það sem DalaAuður gengur út á í hnotskurn. Í árslok 2025 rennur núgildandi samkomulag Dalabyggðar við Byggðastofnun um verkefnið út en óskað hefur verið eftir samtali við stofnunina um e.h. konar framhald á samstarfi í anda þess sem verið hefur og verður það tekið upp á vormánuðum skv. viðbrögðum sem fengust frá forstjóra Byggðastofnunar.

Samgöngumálin hafa komið við sögu líkt og fyrri ár, sveitarfélagið samþykkti uppfærða tillögu að forgangsáætlun vegaframkvæmda í Dalabyggð fyrr á árinu og hefur sú skýrsla vegið þungt í viðræðum okkar við stjórnvöld og stofnanir sem að þeim koma. Einnig hefur samfélagið gripið til ýmissa aðgerða til að vekja athygli á bágbornu ástandi vega og hafa þær vakið verðskuldaða athygli, sbr. blómaskreytingar sem komið var í valdar holur á Skógarstrandavegi sl. sumar, friðsamar aðgerðir en árangursríkar og nú er bara að vona að ný ríkisstjórn blási glæður i vegaframkvæmdir hér í Dölum og nágrenni. Rétt er að nefna að ákveðnir áfangar náðust í uppbyggingu á vegakerfinu okkar í Dalabyggð á árinu en betur má ef duga skal til þess að við nálgumst það að verða jafnokar ýmissa annarra landssvæða í vegamálum.

Í febrúar 2023 úthlutaði innviðaráðherra styrkjum til byggðaverkefna þar sem tvö verkefni í þágu Dalabyggðar fengu styrk og eitt samstarfsverkefni sem snertir svæðið. Verkefnin í þágu Dalabyggðar er annars vegar „Iðngarðar í Búðardal“ og hins vegar ímyndarverkefnið „Dalabyggð í sókn“. Bæði verkefnin hafa fengið gott brautargengi og skemmst er að minnast íbúafundar sem fjallaði um verkefnið „Dalabyggð í sókn“ núna í nóvember og þeirra ánægjulegu þróunar sem átti sér stað núna á síðustu dögum þegar Byggðastofnun tilkynnti um vilja sinn til að koma að tilraunaverkefni hér í Dölum í samstarfi við sveitarfélagið um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og verulegs fjárstuðnings því samfara. Næstu skref í þeim efnum verða til umræðu í upphafi komandi árs. Byggðastofnun hefur stutt myndarlega við bakið á samfélaginu í Dölum undanfarin misseri og fyrir það ber að þakka.

Sunnudaginn 3. nóvember sl. skilaði starfshópur sem umhverfis-, orku-, og lofslagsráðherra skipaði til að vinna tillögur um aðgerðir sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins og stuðlað geta að því að efla samfélagið í Dalabyggð af sér skýrslu til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar ráðherra. Starfshópurinn var skipaður þeim Sigurði Rúnari Friðjónssyni, sem var formaður hópsins, Höllu Steinólfsdóttur ásamt undirrituðum. Það verður spennandi að fylgja eftir þeim tillögum sem í skýrslunni felast á komandi ári.

Sveitarstjórnir Dalabyggðar og Húnaþings vestra hafa samþykkt að hefja könnunarviðræður til að ræða mögulega fleti þess að sveitarfélögin tvö sameinist.  Sveitarstjórnirnar hafa samþykkt að skipa tvo fulltrúa og tvo til vara í verkefnishóp til að skoða hvort fýsilegt sé fyrir Dalabyggð og Húnaþing vestra að hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna skv. 119. grein sveitarstjórnarlaga. Sveitarstjórar sveitarfélaganna tveggja munu starfa með verkefnishópnum með málfrelsi og tillögurétt á fundum. Skal hópurinn skila niðurstöðum eigi síðar en 30. apríl 2025. Markmið verkefnishópsins er að leiða könnunarviðræður og kanna hvort grundvöllur sé fyrir sameiningu sveitarfélaganna. Viðræðurnar munu m.a. fela í sér mat á fjárhagsstöðu sveitarfélaganna, skipulagi og starfsemi og mati á væntum breytingum við mögulega sameiningu. Verkefnishópnum er falið að leita eftir sjónarmiðum íbúa í ferlinu. Áréttað er að í óformlegum sameiningarviðræðum felst engin skuldbinding af hálfu sveitarfélaganna og geta þau hætt viðræðum hvenær sem er. Verkefnishópnum er skv. samþykktum sveitarstjórnanna falið að leita sérfræðiráðgjafar við vinnuna og sækja um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fyrir kostnaði sem af henni hlýst þannig að ekki á að hljótast af verulegur kostnaður vegna þeirrar vinnu sem hér um ræðir fyrir sveitarsjóði beggja vegna Laxárdalsheiðarinnar.

Ágæti lesandi, þau eru margþætt viðfangsefni okkar sem sinnum störfum í þágu sveitarfélagsins í Dalabyggð og er hér aðeins stiklað á stóru og alls ekki hægt að nefna allt sem inn á borð okkar starfsmanna Dalabyggðar, margt er háð trúnaði sem ber að virða og mörgu hafa verið gerð góð skil á heimasíðu okkar og héraðsmiðlinum dýrmæta Skessuhorni og einnig hafa landsdekkandi fjölmiðlar veitt okkur athygli og er það vel því það er af nógu af taka hvað varðar fréttnæmt efni héðan úr Dölunum. Verkefnin eru margskonar og langflest skemmtileg þannig að við horfum björtum augum fram á veginn nú þegar árið 2024 er að renna sitt skeið og við heilsum árinu 2025 af auðmýkt og virðingu.

Ágæti lesandi, Dalabyggð er sveitarfélag í sókn og vilji til framfara er svo sannarlega til staðar. Í pistli sem ég birti á heimasíðu Dalabyggðar í febrúar sl. hafði ég á orði að kyrrstaða væri ekki valkostur og er það og verður leiðarstef mitt áfram í mínum störfum í þágu samfélagsins í Dalabyggð og hef ég mér til fulltingis í þeirri áherslu kröftugt og gott samstarfsfólk, bæði embættismenn sem og kjörna fulltrúa. Við þurfum að halda áfram að þróa allt okkar starf, hvort það sem er sveitarfélagið eða önnur starfsemi þannig að okkar samfélag sé og verði samkeppnishæft hvað varðar búsetugæði í öllu tilliti. Við þurfum að nýta tímann vel þá 18 mánuði sem eftir eru af yfirstandandi kjörtímabili því tíminn flýgur þegar næg eru verkefnin. Ég vil hér sem fyrr hvetja til þess að við stöndum saman kæru íbúar og vinir og stuðlum þannig að því að komandi misseri færi okkur enn fleiri tækifæri, enn fleiri sóknartækifæri, samfélaginu í Dölunum til heilla á allan hátt.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og góðs og farsæls komandi árs – með kærri þökk fyrir góð samskipti og samvinnu á árinu sem er að líða, megi árið 2025 verða okkur öllum gott og gjöfult.

 

Með vinsemd,

Björn Bjarki Þorsteinsson

sveitarstjóri

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei