Á ferðatíma jólasveina (12. desember til 6. janúar) verða fjórar örsýningar tengdar jólunum í stjórnsýsluhúsinu. Eru gestir og gangandi hvattir til að heimsækja stjórnsýsluhúsið og njóta þessara sýninga auk listaverka frá Listasafni Dalasýslu sem prýða sali og ganga hússins.
Í anddyri stjórnsýsluhússins er sýnishorn af eldri jólakortum í vörslu Héraðsskjalasafns Dalasýslu og jólatré Byggðasafns Dalamanna með jólaskrauti í boði Kvenfélagsins Hvatar. Sýningin er opin alla virka daga á meðan húsið er opið.
Á Héraðsbókasafni Dalasýslu er sýning Dalamanna af erlendum uppruna. Er þar að sjá ýmsa muni tengda jólahaldi í Danmörku, Póllandi, Tékklandi og Þýskalandi. Bókasafnið er opið kl. 12:30-17:30 á þriðjudögum og fimmtudögum.
Í fundasal á annarri hæð eru jólaverk nemenda í 3. og 4. bekk Auðarskóla. Sýningin er opin alla virka daga á meðan húsið er opið og engir fundir í salnum.
Á gangi framan við afgreiðslu sýslumanns Vesturlands og Héraðsskjalasafns Dalasýslu er sýnishorn af ljósmyndum tengdum jólaföndri og litlu jólunum í Laugaskóla. Sýningin er opin alla virka daga á meðan húsið er opið.
Á skrifstofugangi Dalabyggðar eru m.a. verk frá Listasafni Dalasýslu sem varð 40 ára nú í ár.