Nemendur Auðarskóla fengu önnur verðlaun fyrir fjölbreyttar og áhugaverðar hugmyndir um eflingu heimabyggðar vegna loka fyrri hluta verkefnisins; Heimabyggðin mín, nýsköpun, heilbrigði og forvarnir. Verkefnið er á vegum Landsbyggðarvina í Reykjavík og nágrenni.
|
Arnór Einar Einarsson í Grunnskóla Raufarhafnar fékk fyrstu verðlaun fyrir Síldarþorpið og Þorbjörg Anna Sigurbjörnsdóttir í Borgaskóla Grafarvogi fékk þriðju verðlaun fyrir hugmyndina um að byggja innanhúss skíðahús í hlíðum Úlfarsfells
Dómnefndin ákvað að verðlauna þá nemendur sem sendu inn fjölbreyttar tillögur í stað þess að taka eina út sérstaklega. Nemendur Auðarskóla voru m.a. með hugmyndir um að setja upp skíðalyftu í fjall hjá Laugum en brekkan gæti þá nýst fyrir reiðhjól (,,downhill“) á sumrin. Hugmynd um alhliða heilsumiðstöð og félagsmiðstöð, bæði sem afþreying fyrir heimamenn og ferðamenn sem gætu notið fjölbreyttrar þjónustu í heilsumiðstöðinni. Mála ,,Velkomin í Búðardal“ á gamla vatnstankinn og snyrta bæinn enn frekar.
Nemendur Auðarskóla þóttu sýna mikinn metnað í því að vilja efla heimabyggðina með aukinni þjónustu við ferðamenn og ekki síst að stefna að því að auka félagslífið á svæðinu enn frekar. Nemendur Auðarskóla tóku líka þátt í fyrra og unnu til verðlauna. Nú er seinni hlutinn farinn af stað og stefna þau á að gera enn betur í honum.
Á þriðjudaginn kom sveitarsjórn Dalabyggðar í heimsókn og kynntu nemendur fyrir þeim hugmyndir sínar að bættu samfélagi hér. Sveitarstjóri bað nemendur um að fá hugmyndir þeirra til umfjöllunar hjá sveitarstjórn þar sem þær væru góð viðbót við þær hugmyndir sem komu fram á íbúaþingi í janúar og ætla nemendur að verða við þeirri bón.