Síðasta sögustundin á Byggðasafni Dalamanna í þessari lotu verður sunnudaginn 22. mars kl. 15. Að þessu sinni verður fjallað um heimamanninn Lauga-Magnús.
Magnús Jónsson (1763-1840) var fæddur í Miðfirði og fylgdi einstæðri móður sinni víða um Húnavatnssýslu.
Í kjölfar móðuharðindana kemur Magnús í Dalina, var vermaður undir Jökli og stundaði smíðar. Vinnumaður á Svalbarða og Fremra-Skógskoti í Miðdölum. Bóndi á Höskuldsstöðum, Lambastöðum, Giljalandi, Fjósum, Leysingjastöðum, Magnússkógum og síðast á Laugum í Sælingsdal.
Magnús var eitt afkastamesta rímnaskáld 19. aldar. Prentaðir hafa verið tveir rímnabálkar; Bernódusarrímur og Rímur af Gríshildi góðu. Þá hafa og margar lausavísur hans lifað, en hann þótti heldur níðskældinn og ekki alveg laus við smákerskni.