„Segja vil ég sögu
af sveinunum þeim…“
Þannig hefst fyrsta erindið í Jólasveinavísum Jóhannesar Jónassonar úr Kötlum, sem festi í sessi nöfn hinna 13 íslensku jólasveina.
Til að heiðra minningu hans á þessum árstíma hefur ljóskösturum verið komið fyrir sem munu lýsa upp brjóstmynd af skáldinu er stendur við Auðarskóla í Búðardal. Þessi minningavottur er fyrir tilstuðlan Svavars Garðarssonar og mun fá að njóta sín inn í nýtt ár. Svavari eru færðar þakkir fyrir framtakið.
Jóhannes Jónasson var fæddur á Goddastöðum í Dölum 4. nóvember 1899 en ólst upp í Ljárskógaseli. Skammt frá selinu rennur áin Fáskrúð og þar er að finna svonefnda Katlar sem Jóhannes kenndi sig við.
Jóhannes var rithöfundur og ljóðskáld, þýðandi, farkennari og alþingismaður. Hann var eitt helsta skáld sinnar samtíðar og mjög afkastamikill höfundur. Eftir hann liggja 20 frumsamdar ljóðabækur fyrir börn og fullorðna, eina bók með þýddum ljóðum, fimm skáldsögur og eitt smásagnasafn auk fjölda greina.
„Jólin koma“ var þriðja ljóðabók Jóhannesar, gefin út 1932. Hún hefur orðið hans vinsælasta bók og segja má, sú sem heldur nafni hans lifandi kynslóð eftir kynslóð.
Hægt er að kynna sér lífshlaup Jóhannesar frekar á heimasíðu Alþingis og einnig á síðunni Jóhannes.is