Meira en sjö hundruð karlar greinast ár hvert með krabbamein. Rannsóknir sýna að með forvörnum og heilbrigðu lífi er hægt að koma í veg fyrir eitt af hverjum þremur tilfellum. Mottumars 2012 hefst næsta fimmtudag og eru allir sem geta hvattir til þátttöku.
Með því að safna skeggi er sýnd samstaða og um leið safnað áheitum til styrktar málefninu. Átakið er tvíþætt, árveknisátak og fjáröflunarátak. Það sem safnast verður notað til að efla forvarnir og fræðslu, rannsóknir og ráðgjöf.
Skráningar fara fram á www.mottumars.is. Opnað verður fyrir skráningu fljótlega. Þar verður hægt að hlaða inn myndum og senda upplýsingar til vina og vandamanna með tölvupósti, á Twitter eða á Facebook um að þú sért að taka þátt í ár og hvetja þau til að heita á þig.
Ýmsar nýjungar munu líta dagsins ljós, svo sem að einstaklingur skráir sig og getur síðan skráð sig í lið, keppendur geta sett sér sjálfir markmið í áheitasöfnun, leikir meðan á keppninni stendur verða í boði og nöfn þátttakenda sem hafa safnað tiltekinni fjárhæð á tilskildum tíma munu verða sett í pott. Dregið verður úr þeim potti vikulega og eru veglegir vinningar í boði.
Þeir sem safna mestum áheitum út allan mars, bæði í einstaklings- og liðakeppninni, fá viðurkenningu sem nefnist Mottan 2012 og vegleg verðlaun, og einnig verður veitt viðurkenning fyrir fegurstu mottuna 2012.