Norræni skjaladagurinn

DalabyggðFréttir

Norræni skjaladagurinn er að þessu sinni helgaður íþrótta- og æskulýðsstarfi á 20. öld. Héraðsskjalasafn Dalasýslu verður með sýningu á skjölum frá æskulýðs- og íþróttafélögum í Dölum sunnudaginn 11. nóvember kl. 13-17 í Byggðasafni Dalamanna á Laugum í Sælingsdal.
Norræni skjaladagurinn er laugardaginn 10. nóvember, en þar veðurspár gera ráð fyrir leiðindaveðri hefur sýningunni verið frestað fram á sunnudag í von um betra veður til ferða milli bæja.

Til sýnis verða gögn frá Sundfélagi Hörðdælinga, Umf. Æskunni, Umf. Ólafi páa, Umf. Unni djúpúðgu, Umf. Dögun, Umf. Von, Umf. Tilraun / Vöku, Umf. Stjörnunni, Ungmennasambandi Dalamanna / Ungmennasambandi Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga og Hestamannafélaginu Glað.
Félag héraðsskjalavarða á Íslandi og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hafa staðið fyrir átaki í söfnun skjala íþróttafélaga frá því í vor í tilefni af 100 ára afmæli ÍSÍ.

Tilgangurinn með átakinu er að tryggja örugga varðveislu skjalasafna íþróttafélaga og að þau verði öllum aðgengileg á héraðsskjalasöfnum. Skjalasöfn íþróttafélaganna eru frumheimildir um starfsemi þeirra. Mikilvægt er að horfa til framtíðar og halda sögu félaganna til haga. Hvaða hugsjónir voru að baki stofnun og starfsemi þeirra, hvernig voru keppnisferðir fjármagnaðar, hverjir áttu metin fyrir hundrað árum síðan, hverjir voru í stjórnum, o.s.frv?
Með skjölum er átt við fundagerðabækur, sendibréf, tölvupóst, ljósmyndir, félagaskrár, mótaskrár, ársskýrslur, kynningarefni og annað það sem rekur sögu og starfsemi félaganna.

Mörg skjalasöfn íþróttafélaga eru varðveitt við misjafnar aðstæður og oft á tíðum í heimahúsum stjórnarmanna, núverandi og fyrrverandi. Þegar skjölin eru komin á skjalasafn er hægt að hafa þau að hluta eða í heild aðgengileg og félögin geta fengið þau lánuð út, til dæmis fyrir sýningar.
Þá er mikilvægt að gæta að daglegu skjalahaldi hjá íþróttafélögunum, m.a. með það í huga að skjalasöfnum nútímans er nokkur hætta búin vegna rafræna forms. Oft gleymist að koma gögnum á varðveitanlegt form með útprentun og hafa þannig oft glatast á skömmum tíma.
Á sunnudeginum, sem og aðra daga, verður tekið á móti skjölum, ljósmyndum, frásögnum og munum tengdum ungmenna-, æskulýðs- og íþróttafélögum í Dölum.
Úr fundargerðarbókum ungmennafélaga í Dölum
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei