Norræni skjaladagurinn 2015

DalabyggðFréttir

Héraðsskjalasafn Dalasýslu verður með dagskrá í tilefni norræna skjaladagsins sunnudaginn 15. nóvember frá kl. 15 í Byggðasafni Dalamanna á Laugum í Sælingsdal.
Í ár er samnorrænt þema „Gränslöst“. Íslensk yfirskrift skjaladagsins er „Án takmarka“. Augljóslega varð því viðfangsefni Héraðsskjalasafns Dalasýslu „Fjallskil í Dölum“.
Vegna mótþróa sauðkindarinnar að þekkja og virða merki jarða, hreppa og sýslna hefur þróast allt frá landnámi stórmerkileg stjórnsýsla til að koma sauðkindinni aftur til sinna heima.
Það þarf að vera unnt að sanna eignarrétt, samstilla leitir til að þær skili árangri og í lokin réttir til að geta komið hverri kind til síns eiganda. Fyrirkomulag fjallskila er ekki eins um allt land, enda aðstæður milli jarða, sveita og héraða mjög mismunandi og taka þarf tillit til þess.
Fjallskil voru meðal fyrstu viðfangsefna sveitarstjórna og einn mikilvægasti málaflokkurinn í gamla sveitasamfélaginu. Réttir eru líklega elstu menningarsamkomur hverrar sveitar. Þær byggja á aldagömlum hefðum, sem hafa þróast með breyttum aðstæðum. Enn í dag eru þær vel sóttar og víða fjölmennustu samkomur hverrar sveitar.
Héraðsskjalasafn Dalasýslu tekur á móti hvers kyns skjölum sem tengjast fjallskilum (mörkum, leitum og réttum). Má þar nefna markaskrám, fjallskilaseðlum, uppdráttum af leitarsvæðum, frásögnum úr leitum og réttum og hverju því sem tengist viðfangsefninu.
Byggðasafn Dalamanna tekur á móti ljósmyndum og munum sem tengjast fjallskilum (mörkum, leitum og réttum) í Dölum. Má þar nefna markatöngum, brennimerkjum, plötumerkjum og öðru því sem tengist fjárragi.
Allir eru velkomnir á dagskrá Héraðsskjalasafns Dalasýslu á Laugum í Sælingsdal sunnudaginn 15. nóvember kl. 15. Enginn aðgangseyrir og tilvalið tækifæri til að sýna sig og sjá aðra.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei