Nýtt aðkomutákn við Búðardal kynnt

DalabyggðFréttir

Á hátíðarhöldunum 17. júní var tilkynnt um nýtt aðkomutákn við Búðardal. Formaður menningamálanefndar Dalabyggðar, Þorgrímur Einar Guðbjartsson kynnti verkið og upplýsti loks um höfund þess. Það er Svavar Garðarsson frá Hríshóli í Reykhólasveit sem hannaði þetta nýja aðkomutákn. 

Auglýst var eftir verki í febrúar með frest til 10. apríl að skila inn tillögum. Senda átti inn tillögu að frumhönnun ásamt útskýringu á verkinu og hvaða tengingu það hafi við sveitarfélagið.
Tekið var fram að verkið þyrfti að þola íslenskt veður, vera endingargott og raunhæft í framkvæmd. Ekki var gerð krafa um úr hvaða efni verið yrði eða frekari framsetningu þess, þ.e. hvort um væri að ræða skilti, frístandandi verk eða annað.
Í lok apríl 2024 kom hópurinn saman og fór yfir innsendar tillögur sem voru fjórar talsins en mjög ólíkar og skemmtilegar.

Í hópnum sátu:
Fyrir hönd Dalabyggðar – Alexandra Rut Jónsdóttir, fulltrúi menningarmálanefndar, Einar Jón Geirsson, fulltrúi menningarmálanefndar (kom inn í stað Alexöndru) og Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri
Fyrir hönd Vegagerðarinnar – Birgitta Rán Ásgeirsdóttir, deildarstjóri tæknideildar og Sigurður Friðgeir Friðriksson, sérfræðingur á tæknideild
Fyrir hönd SSV – Sigursteinn Sigurðsson, menningarfulltrúi Vesturlands

Að störfum hópsins komu einnig Guðlaug Kristinsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsnefndar og Jóhanna María Sigmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Dalabyggð og starfsmaður hópsins.

Aðkomutáknið

Keðjan sem myndar hring:
Samfélag sem saman stendur af mörgum sterkum hlekkjum, þeir mynda samfellda keðju sem umlykur sveitir og sællega byggð.
Vísar einnig til Gullna söguhringsins og margra viðkomustaða hans sem geyma sterka sögu.

Segl víkingaskipsins er sveigt til vesturs vegna vindsins sem stefnir því til Ameríku:
Seglið er eftirlíking af opinni bók, líkt og seglið bar víkingaskipið til Ameríku og fleiri staða þá ber bókin söguna um allan heim. Kápa bókarinnar er minning um sagnaritarann Sturlu Þórðarson frá Staðarhóli, sögusvið Íslendingasagna í Dölunum og Árna Magnússon handritasafnara fæddur á Kvennabrekku. Blaðsíðurnar í bókinni eru til minningar um ljóðskáld áður búsett hér eða sem hafa komið okkur á kortið.

Skáldin eru í stafrófsröð:
Björn Stefán Guðmundsson frá Reynikeldu
Hallgrímur Jónsson frá Ljárskógum
Jóhannes úr Kötlum
Jón Jónsson frá Ljárskógum
Stefán frá Hvítadal
Steinn Steinarr frá Miklagarði
Theodóra Thoroddsen fædd á Kvennabrekku
Þorsteinn Eggertsson textahöfundur

Víkingaskipið og ásýnd þess í heild:
Með víkingaskipinu er verið að minnast afreks Leifs Eiríkssonar frá því um árið 1000 þegar hann sigldi vestur um haf og fann það land sem hann nefndi Vínland. Aftur kemur hringlaga keðjan við sögu og táknar í því samhengi sterkan vilja og stóran sjóndeildarhring Leifs þegar hann leggur upp í þennan leiðangur.

Stallur undir víkingaskipið:
Víkingaskipið þarf að vera á stalli sem ber handbragð þess tíma, ytra útlit þarf að vera grjóthleðsla.

Efnisval:
Gert er ráð fyrir því að allt efni sé úr stáli og verði ryðgað á að líta, þó kemur til greina að blaðsíðurnar í bókinni verði úr þunnu reimargúmmíi.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei