Sex verkefni á Vesturlandi fá framkvæmdastyrki

DalabyggðFréttir

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra menningar- og viðskipta, tilkynnti um úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða þann 14. apríl sl. Það eru 28 verkefni víðsvegar um landið sem hljóta styrki sem hljóða alls upp á 550 milljónir. Þar af eru sex verkefni á Vesturlandi sem fá stuðning og eitt í Dalabyggð.

Verkefni „Gönguleið Fellsströnd – Skarðsströnd“ fær 460.000 kr.- styrk til að útbúa gönguleið frá Á á Skarðsströnd yfir að Vogi á Fellsströnd. Gönguleiðin verði opin öllum og hugsuð sem lyftistöng fyrir svæðið, aðdráttarafl fyrir ferðamenn, en nýtist heimamönnum einnig. Búið er að skipuleggja leiðina, fá leyfi landeigenda, teikna upp kort og hnitsetja leiðina. Næstu skref eru að stika/merkja hana og setja upp upplýsingaskilti við upphaf hennar beggja megin.

Í umsögn með úthlutun segir m.a.: Hér er um að ræða gott verkefni sem fellur mjög vel að markmiðum sjóðsins um náttúruvernd og öryggi. Verkefnið er inni á áfangastaðaáætlun Vesturlands og styður við uppbyggingu á veiku svæði.

Framkvæmdasjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja. Það verður gaman að fylgjast með verkefninu á komandi mánuðum en það fékk einnig styrk úr Frumkvæðissjóði DalaAuðs sl. haust.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei