Ingibjörg Jóhannsdóttir tilnefnd til Íslensku lýðheilsuverðlaunanna 2023

Dalabyggð Fréttir

Sex aðilar hafa verið tilnefndir til Íslensku lýðheilsuverðlaunanna sem forseti Íslands efnir til í fyrsta sinn í vor. Kallað var eftir hugmyndum að verðugum verðlaunahöfum frá almenningi og bárust hátt í 350 tillögur. Dómnefnd hefur nú tekið þær til umfjöllunar og tilnefnt þrjú verkefni í tveimur flokkum; flokki einstaklinga og flokki fyrirtækja/samtaka/stofnana.

Það er engin önnur en Ingibjörg Jóhannsdóttir, aðalbókari sveitarfélagsins Dalabyggðar sem hefur hlotið tilnefningu í flokki einstaklinga!

Í fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands segir um tilnefningu Ingibjargar:

Ingibjörg situr í stjórn Ungmennafélagsins Ólafs Páa í Dölunum og hefur af eldmóði sinnt margvíslegu almannaheillastarfi í heimahéraði um árabil og staðið fyrir fræðslunámskeiðum fyrir allan aldur. Síðastliðin tvö ár hefur hún verið leiðandi í sjálfboðaliðaverkefni sem felst í að koma upp líkamsræktarstöð með aðstöðu fyrir sjúkraþjálfara í Dalabyggð svo heimamenn þurfi ekki að sækja þjónustuna annað.  

Við óskum Ingibjörgu til hamingju með tilnefninguna og sendum um leið þakkir fyrir störf hennar í þágu lýðheilsueflingar og almannaheilla í Dalabyggð.

Aðrir sem tilnefnir eru: Olga Khodos fyrir sálrænan stuðning og þjónustu til handa úkraínsku flóttafólki og Snorri Már Snorrason fyrir baráttu við og forvarnir gegn parkinsonssjúkdómnum í flokki einstaklinga. Janus heilsuefling, Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og Íþróttafélagið Ösp – íþróttir án aðgreiningar, í flokki fyrirtækja/samtaka/stofnana.

Íslensku lýðheilsuverðlaunin eru samstarfsverkefni embættis forseta Íslands, heilbrigðisráðuneytisins, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, embættis landlæknis og Geðhjálpar.
Markmið þeirra er að vekja athygli á mikilsverðu framlagi á sviði lýðheilsu og auka með þeim hætti áhuga á bættri heilsu og líðan þjóðarinnar.

Tilkynnt verður hver hlýtur verðlaunin í hátíðlegri athöfn á Bessastöðum sem sjónvarpað verður á RÚV annað kvöld, þann 19. apríl. Við hvetjum íbúa til láta útsendinguna ekki fram hjá sér fara. Fyrir þá sem verða staddir á setningarathöfn Jörvagleði þá verður hægt að nálgast efnið síðar, m.a. á ruv.is

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei