Skátafélagið Stígandi

DalabyggðFréttir

Mikið er ætíð um að vera hjá skátafélaginu Stíganda og hefur engin undantekning verið þar á í haust.

Jólavaka

Foreldrum, systkinum og öðrum var boðið á jólavöku í Dalabúð og var góð mæting. Dróttskátar stjórnuðu jólavöku og jólasveinninn kom í heimsókn. Skátarnir voru búnir að útbúa skemmtiatriði.
Friðarloginn var móttekinn enn á ný af áralöngum sið. Fálkaskátastelpur fóru eftir jólavökuna með hann á Silfurtún þar sem íbúar pössuðu hann af alúð. Einnig fór hann á aðventuhátíð að Fellsenda. Sjá nánar á www.fridarlogi.is.

Laugaútilega

Skátafélag Akraness og Stígandi standa sameiginlega að Laugaútilegunni og gekk hún mjög vel. Í ár voru skátar úr Dölum í fyrsta skipti fjölmennari hópur en skátar frá Akranesi. Hóparnir blandast vel og eru flestir farnir að þekkjast innbyrðis.
Rekkaskátar og foreldrar eru stór hluti af þeim sem mætir á Lauga. Þá komu drekaskátar í dagsferð á laugardeginum og áttu góðan dag í leik og starfi. Það voru um 90 manns á Laugum þegar flest var.
Helgin tókst mjög vel í sátt og samlyndi við leik og störf. Þeir sem stóðu að því að gera þessa helgi að veruleika eiga þakkir skyldar frá stjórnum félaganna. Það eru allir þegar farnir að bíða eftir næstu Laugaútilegu sem verður að sjálfsögðu að ári með sama sniði og venjulega.

Drekaskátar

Drekaskátarnir eru 12 kátir og skemmtilegir krakkar úr 3.-4. bekk. Þeir hafa nýtt haustfundartímana í að fara í vígslugrunninn þ.e. lært og fjallað um skátalögin skátaheitið og margt margt fleira einnig hafa drekarnir sungið skátalög og farið í leiki.

Fálkaskátar

Strákarnir í fálkaskátahópnum eru 16 og er skipt í tvo flokka; Smyrla og Erni. Leikir hafa verið mikið notaðir til að koma ýmsum lærdómi til skila. Leikræn tjáning, söngur og að koma fram. Farið var í ferð til Borðeyrar og var hún mikil upplifun. Drengirnir í 7. bekk fengu þrjú verðlaun af þeim sex sem veitt voru í Laugaútilegunni.
Fálkaskátastúlkurnar eru 11 og skiptast í tvo flokka, Álftir og Snæuglur. Mjög skemmtilegar og er mikið fjör á fundum. Sungið, hlegið og skrafað. Eitt af því sem mikið hefur verið unnið með er jákvæðni. En hópurinn er mjög samstilltur og á auðvelt með að vinna saman.
Einn langur fundur var haldinn í lok annar og tókst hann mjög vel. Stúlkurnar stóðu sig með prýði í félagsútilegunni á Laugum og komu heim með eina viðurkenningu.
Fálkastelpur og strákar hafa síðan verið saman í ýmsu, svo sem kennslu á áttavita, fána, hnúta og fleiru.

Dróttskátar

Í dróttskátum starfa 11 skátar og skiptast í tvo flokka. Stelpurnar starfa saman og kalla sig Dimon og strákarnir saman og ber flokkurinn það frumlega nafn Loðnir fætur.
Það markverðasta í starfinu í vetur var að sjálfsögðu vígslan á Laugum. Nýir meðlimir voru vígðir inn við feyki skemmtilega athöfn í brjáluðu veðri laugardaginn 29. október. Að vanda er ekkert gefið upp um þá athöfn.
Þá kom Jói skáti í heimsókn frá Akranesi og kenndi á áttavita, útbjó ýmis verkefni og sagði sögur frá björgunarsveitastarfi. Dróttskátarnir eru að æfa sig í að vera foringjar og leiðbeina hvort öðru um efni sem tengist skátastarfi. Dróttskátarnir hafa einnig verið ötulir að hjálpa til við starf yngri flokka og æfa sig að vera foringjar.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei