Fimmtudagskvöldið 23. júlí kl. 19:30 verður farið í sögurölt við Þiðriksvallavatn, frá stíflunni ofan við Þverárvirkjun og eftir vegarslóða fram að eyðibýlinu Vatnshorni.
Um er að ræða 2,5 km göngu hvora leið, samtals 5 km, svo þetta rölt er heldur lengra en venjan er. Frá ýmsu er að segja þarna í Þiðriksvalladalnum og búast má við fróðleik um búskap og þjóðsögur í bland.
Lagt er af stað í gönguna frá stíflunni ofan við Þverárvirkjun. Til að komast þangað þarf að beygja af þjóðveginum, ofan við golfvöllinn í Skeljavík rétt sunnan Hólmavíkur, þar sem skilti segir Þverárvirkjun. Eftir þeim vegi er ekið framhjá einu sumarhúsi til hægri handar, en beygt til hægri eftir slóða sem er fær öllum bílum upp að stíflu, áður en kemur að næsta sumarhúsi (Strandaseli, húsi Átthagafélagsins) og áður en komið er að virkjuninni sjálfri. Um 4 mínútur tekur að aka upp að stíflunni frá þjóðveginum.
Söguröltið er hluti af gönguferðum safnanna á Ströndum og Dölum, Byggðasafns Dalamanna og Sauðfjárseturs á Ströndum.