Staðarfellskirkja 120 ára

DalabyggðFréttir

Í tilefni þess að 120 ár eru frá vígslu Staðarfellskirkju verður guðsþjónusta þar sunnudaginn 30. október kl. 14. Boðið verður í kaffi eftir athöfnina.
Núverandi kirkja á Staðarfelli er timburkirkja teiknuð og smíðuð af Guttormi Jónssyni frá Hjarðarholti sumarið 1891 fyrir forgöngu Hallgríms Jónssonar bónda á Staðarfelli. Kirkjan var síðan vígð 11. október 1891.
Nokkrar breytingar voru gerðar á kirkjunni 1962-63. Steinhlaðinn sökull kirkjunnar var styrktur með steinsteypu, kirkjan bárujárnsklædd að utan, gluggarammar fjarlægðir og veggir að innanverðu klæddir krossviði og skrautmálaðir af Jóni og Grétu Björnsson. Kirkjubyggingin hefur verið friðuð frá 1. janúar 1990.
Staðarfellskirkja er sóknarkirkja Fellsstrendinga. Þrátt fyrir að söfnuðurinn sé ekki fjölmennur né kirkjan í þjóðbraut eru fáar kirkjur landsins betur nýttar. Á árunum 1927-1976 var rekinn húsmæðraskóli á Staðarfelli og frá 1980 hefur starfað þar meðferðarheimili á vegum SÁÁ.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei