Svæðisskipulag

DalabyggðFréttir

Þann 6. september var haldinn annar opni súpufundurinn í tengslum við svæðisskipulagsvinnu Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar. Á fundinn komu rúmlega 30 manns til að ræða þróun heimahaganna.
Fyrir fundarmenn voru lögð tvö verkefni. Annað sneri að efnivið fyrir svæðismark (vörumerki) svæðisins. Hitt fólst í skipulagningu ferðaleiða og áfangastaða.
Í tengslum við fyrra verkefnið kynntu ráðgjafar frá Alta fordæmi og fyrirmyndir frá svæðum á Norðurlöndum og víðar þar sem sveitarfélög hafa tekið sig saman um að kynna sitt svæði undir einu svæðismarki, í þeim tilgangi að laða að ferðamenn, fyrirtæki og nýja íbúa. Fyrir síðara verkefnið voru kynnt erlend fordæmi um vel útfærðar ökuleiðir og gönguleiðir með áhugaverða áfangastaði.
Fundarmenn voru áhugasamir og umræður fjörugar og safnaðist mikið og gott efni á fundinum. Sem dæmi um efnivið fyrir svæðismark tóku þátttakendur nærtæk dæmi úr fjölbreyttri og stórbrotinni náttúru, s.s. samspil fjalls og fjöru, dala og stranda og síbreytilegt landslag til stranda vegna sjávarfalla. Þrátt fyrir magnað og fjölbreytt landslag var því samt sem áður lýst sem „þægilegu“, t.d. sem hentugu göngusvæði á margan hátt. Mikið var rætt um óvenju fjölbreytta flóru hlunninda sem svæðið er ríkt af. Laxveiði, dúntekja, reki, sjávarnytjar, fuglar, berjalönd og fleira mætti taka sem dæmi þar um. Einkennandi fyrir svæðið töldu fundarmenn einnig virkni í félagslífi, samheldni og hjálpsemi í samfélögunum, sem m.a. væri til komin vegna fámennis. Á menningarsviðinu stóðu nokkur lykilorð uppúr, eins og galdrar, þjóðsögur og tilgreindar Íslendingasögur, matarhandverk og ýmislegt annað tengt sauðfé og sauðfjárbúskap.
Í verkefni um ferðaleiðir var fundarmönnum uppálagt að skipuleggja annað hvort ökuleið eða gönguleið um svæðið sem þróa mætti og kynna sem heildstæða lykilleið með áhugaverðum áfangastöðum og áningarstöðum. Fimm til sex manns voru á hverju vinnuborði og var afraksturinn tillögur að tveimur ökuleiðum og þremur gönguleiðum þar sem upplifun á leiðinni var lýst, tilgreint hvar aðstaða var fyrir hendi á hverjum áfanga- og áningarstað og hvaða aðstöðu mætti koma upp.
Nánari útfærslur á verkefnunum á lesa á heimasíðu verkefnisins.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei