Sveitarstjóri Dalabyggðar, Björn Bjarki Þorsteinsson, fór á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun, þriðjudaginn 30. maí, þar sem fjallað var um frumvarp til laga um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir (samfélagsvegir).
Dalabyggð sendi inn umsögn við málið í mars sl. Sveitarstjóri fylgdi nú málinu eftir hjá nefndinni í samræmi við áður innsenda umsögn.
Dalabyggð tók fram í umsögn sinni að verkferlar valdi því að mikilvægar innviðauppbyggingar líkt og vegaframkvæmdir, velti oft á fjölda funda, ályktana, greinaskrifum, símtölum og samtölum. Slíkt leiðir oft til þess að beðið er áratugum saman eftir framkvæmdum á vegum, sem liggja um svæði sem annars ættu fyrir sér mikla möguleika.
Í umsögninni kemur einnig fram að Dalabyggð telur að breytingin sé jákvæð umbylting í vegagerð. Breytingin væri nýtt verkfæri fyrir sveitarfélögin, ekki aðeins til að knýja á um breytingar heldur taka þátt í þeim og vera leiðandi í uppbyggingu þessa mikilvæga byggðarmáls sem vegaframkvæmdir eru.
Umsögn Dalabyggðar í heild má lesa hér: Samfélagsvegir – umsögn Dalabyggðar