Héraðsbókasafn Dalasýslu stóð fyrir lestrarátaki yfir sumarið í þriðja sinn. Gefin voru út þrjú bingó-spjöld fyrir mismunandi aldur þ.e. 5-7 ára, 8-9 ára og 10-12 ára. Þátttakendur sóttu spjöldin á bókasafnið fyrir sumarlokun en á hverju spjaldi voru nokkrir reitir sem lýstu aðstæðum eða athöfn sem átti að framkvæma á meðan lestri stóð.
Mánudaginn 7. október sl. var svo þátttakendum boðið að mæta á bókasafnið og fengu gjafir fyrir að hafa lokið bingóinu. Það voru 12 sem tóku þátt í ár og er þeim þakkað fyrir, sem og þeim foreldrum sem sýndu gott fordæmi með því að taka líka þátt í bingóinu. Það er ánægjulegt að sjá fjölgun þátttakenda milli ára, það er sannarlega hvatning til að halda áfram með lestrarátak yfir sumartímann.
Markmið með lestrarátaki yfir sumartímann er að hvert barn lesi, viðhaldi leshraða, lesskilningi og njóti lestursins. Lestur ýtir undir betri og fjölbreyttari orðaforða, styður við þroska barna og eykur þekkingu þeirra á svo margan hátt. Skólar og bókasöfn standa reglulega fyrir lestrarátaki en yfir sumartímann er hætt við að lestur detti niður eða gleymist í fríi og ferðalögum.
Því miður komust ekki allir til að taka á móti gjöfunum en þeir sem ekki komust geta nálgast sinn glaðning á bókasafninu á opnunartíma þess, þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 12:30 til 17:30.
Þá viljum við einnig benda á að úrval nýrra bóka er mætt á safnið. Má þar nefna Brúðarmyndin eftir Maggie O’Farrel, Límonaði frá Díafani eftir Elíasabetu Jökulsdóttur og Draugagangur og Derby eftur Áslaugu Snorradóttur.