Stjórn Silfurtúns og sveitarstjórn hefur undanfarnar vikur átt í samskiptum við Sjúkratryggingar Íslands vegna daggjaldagrunns Silfurtúns og RAI mats stuðuls sem stuðst er við nú við ákvörðun daggjaldagrunns sem heimilinu er greitt samkvæmt. Ekkert hefur miðað og hafa Sjúkratryggingar nú í tvígang hafnað beiðnum okkar þó ýmis rök styðji okkar ósk um að fá daggjaldagrunninn leiðréttan. Munar þarna á annan tug milljóna á ári.
Eins og kunnugt er hefur verið mikill halli á rekstri Silfurtúns mörg undanfarin ár og er það mat okkar að við þá stöðu sé ekki lengur unað því rekstur hjúkrunar- og dvalarrýma á landinu er eitt af hlutverkum ríkisvaldsins, ekki sveitarfélaga.
Á þeim grunni var tekin ákvörðun um það í gær, þriðjudaginn 18. apríl, að segja upp samningi Silfurtúns/Dalabyggðar við Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisráðuneytið um ábyrgð Dalabyggðar á rekstri þeirra rýma sem um ræðir á Silfurtúni. Þetta er stór ákvörðun sem á sér aðdraganda, enda þungt fyrir sveitarsjóð Dalabyggðar að halda áfram að greiða á fjórða tug milljóna með rekstrinum árlega, rekstri sem er skilgreindur sem hlutverk ríkisvaldsins.
Ekki mun koma til uppsagna starfsmanna á Silfurtúni að sinni, það er 6 mánaða uppsagnarfrestur á samningi milli okkar og Sjúkratrygginga Íslands/heilbrigðisráðuneytis og vonandi munu viðræður fara af stað sem fyrst til þess að alger samfella verði í starfi heimilisins þó nýr aðili, væntanlega ríkisvaldið, komi að daglegum rekstri Silfurtúns. Það eru mörg fordæmi fyrir viðlíka aðgerðum hringinn í kringum landið og það er von okkar að ekki verði öðrum aðgerðum beitt í Dalabyggð en annars staðar þar sem heilbrigðisstofnanir viðkomandi landshluta hafa tekið við rekstri öldrunarheimila.
Starfsmönnum, heimilismönnum og aðstandendum þeirra var tilkynnt um ákvörðunina fyrir nýliðna helgi.
Ef einhverjar spurningar vakna má hafa samband við Björn Bjarka Þorsteinsson, sveitarstjóra í síma: 660-8245, eða senda póst á: sveitarstjori@dalir.is