Sveitarfélagið Dalabyggð og Byggðastofnun hafa gert með sér viljayfirlýsingu um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í Búðardal.
Um er að ræða tilraunaverkefni af hálfu Byggðastofnunar þar sem markmiðið er að reisa atvinnuhúsnæði á stað þar sem vöntun á fjárfestingu í atvinnuhúsnæði hefur hamlað framþróun og mun stofnunin leggja til allt að 150 m.kr. í verkefnið.
Sveitarfélagið mun tryggja lóð vegna þeirrar uppbyggingar sem fyrirhuguð er, leggja til teikningar að umræddu atvinnuhúsnæði og leggja til gatnagerð og lagnir að lóð í skiptum fyrir eignarhlut í verkefninu. Grunnur að verkefninu er sú vinna sem þegar hefur átt sér stað í Dalabyggð varðandi áform um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis sem grundvölluð hefur verið á þeim styrk sem fékkst úr C1 sjóði byggðaáætlunar á árinu 2023. Dalabyggð hefur verið þátttakandi í Brothættum byggðum með verkefnið DalaAuður frá árinu 2022. Áætlað er að því verkefni ljúki í árslok 2025.
Víða um land er mikil eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði en framboð takmarkað, hvort sem er til eigu eða leigu. Er verkefnið liður í því skapa svæðinu aukin atvinnutækifæri og efla þannig lífsgæði allra íbúa.
Nánari frétt má lesa á vef Byggðastofnunar: Byggðastofnun og Dalabyggð í samstarf um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis