Yfirfærsla íbúða og undirritun viljayfirlýsingar

DalabyggðFréttir

Á 239. fundi sveitarstjórnar var bókað að komið væri tilboð frá Leigufélaginu Bríeti ehf. í eignir sveitarfélagsins við Stekkjarhvamm og Gunnarsbraut gegn yfirtöku á eignum og skuldum Dalabyggðar og eignarhlut í Leigufélaginu Bríeti ehf.

Leigufélagið Bríet starfar með það að langtímamarkmiði að stuðla að nýsköpun og uppbyggingu íbúðahúsnæðis á þeim svæðum á landsbyggðinni þar sem þess er þörf, m.a. með áherslu á rekstur og útleigu íbúða til lengri tíma.

Nú hefur verið undirritaður samningur þess efnis að íbúðir sem nú eru í eigu Dalabyggðar verði færðar yfir til Leigufélagsins Bríetar gegn hlutafé (1,54%) sem nemur andvirði íbúðanna að frádregnum skuldum. 

Einnig var undirrituð viljayfirlýsing Dalabyggðar og Leigufélagsins Bríetar þar sem aðilar lýsa sig tilbúna til að kosta og tryggja annars vegar að Bríet auglýsi eftir byggingaraðilum til samstarfs vegna kaupa Bríetar á allt að tveimur íbúðum úr nýbyggingum, þar sem byggingaraðilum ber að skila inn byggingaráformum og tilboðum til félagsins fyrir lok maí 2024 og hins vegar að Dalabyggð tryggi aðgengi að hagkvæmum lóðum vegna þeirrar íbúðauppbyggingar sem fyrirhuguð er. Viljayfirlýsingin gildir til ársloka 2024 og falla þá allar skuldbindingar niður ef samningum verður ekki náð í samræmi við markmið.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei