Dalaveitur

DalabyggðFréttir

Í sumar hafa Dalaveitur ehf, félag í eigu Dalabyggðar, unnið að lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu. Verkefnið er styrkt af Fjarskiptasjóði í gegnum verkefnið „Ísland ljóstengt“ sem styður við ljósleiðaravæðing dreifbýlis á Íslandi. Að öðru leyti er stofnkostnaður framkvæmdarinnar fjármagnaður af notendum og Dalabyggð.

Síðsta haust fékk Dalabyggð hæsta mögulega styrk úr samkeppnispotti fyrir Vesturland til að ljósleiðaravæða allt sveitarfélagið utan Skarðsstrandar og yst á Fellsströnd. Vinna við plægingu hófst í apríl í ár og til að byrja með var unnið í leiðum sem boðnar voru út 2017.

Vinna við plægingu hefur gengið ágætlega, en öllu jafna hafa tvö gengi unnið samhliða. Ýmsar tafir, t.d. erfitt land, vætutíð og bið eftir efni, hafa orðið á verkinu og plæging því nokkuð á eftir upphaflegri áætlun. Strengur er kominn í jörð allsstaðar sunnan Búðardals og í Laxárdal. Plæging er hafin í Hvammssveit og á næstu vikum verður lagt með Klofningsvegi í átt að Fellströnd og í Sælingsdal.

Fljótlega í október fer annað gengið í Saurbæinn að plægja meðan hitt plægir vestur Fellsströndina. Verktakinn mun halda áfram meðan veður leyfir, en það er erfitt í miklu frosti og þegar snjór er á jörðu. Vonast er til að ná að klára plægingu í Saurbænum áður en til þess kemur.

Vinna við tengingu hefur verið seinlegri en búist var við, en stefnt er á að virkja tengingar í suðursýslunni seinni hluta október. Allir notendur á þessu svæði eiga að hafa fengið tölvupóst og margir bréf með ítarlegri upplýsingum um framhaldið. Hafið samband við skrifstofu Dalabyggðar eða sendið á dalaveitur@dalir.is ef þið teljið ykkur hafa orðið útundan.

Áfram verður unnið að tengingu þar sem búið er að plægja. Áætlað er að næstu áfangar fái ekki virka tengingu fyrr en í vetur, en upplýst verður með gang mála þegar nær dregur. Saurbærinn verður keyrður á sér tengimiðju og má búast við að frágangur og virkjun tenginga þar verði í seinni hluta vetrar. Það eru mörg sveitarfélög í samskonar verkefnum og því mikið álag á þeim aðilum sem sinna tengingum og fjarskiptafélögum, eins og t.d. MÍLU sem er samstarfsaðili Dalaveitna í þessari uppbyggingu.

Fyrir nánari upplýsingar sendið fyrirspurn á dalaveitur@dalir.is.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei