Í gær voru kynnt áform stjórnvalda um að sett yrði á samkomubann sem tekur gildi kl. 00:00 þann 16. mars 2020 og gildir til 12. apríl 2020 kl. 23:59. Markmið þessara aðgerða er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 faraldurs.
Við þessar aðgerðir verður allt skólahald með breyttu sniði um allt land. Til að skipuleggja þetta hér í Dalabyggð verður skipulagsdagur hjá bæði leik- og grunnskóla á mánudaginn.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá aðgerðarstjórn vegna COVID-19 á Vesturlandi hefur ekkert smit enn greinst á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.
Það er mikilvægt að við höldum ró okkar og fylgjum vel fyrirmælum frá Embætti landlæknis og Almannavörnum. Með því leggjum við okkar af mörkum.
Líkt og fram kom fyrr í vikunni var jafnframt sett á heimsóknarbann á dvalarheimilið Silfurtún og gripið verður til fleiri aðgerða til að hægja á faraldrinum. Allar slíkar aðgerðir og útfærsla þeirra verður birt hér á heimsíðu sveitarfélagsins og kynnt hlutaðeigandi. Jafnframt hvet ég foreldra til að fylgjast vel með tölvupósti og skilaboðum frá Auðarskóla.
Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti.