Viðbragðsáætlun í landbúnaði vegna COVID-19

DalabyggðFréttir

Nú þegar COVID-19 veiran herjar á landið er nauðsynlegt fyrir bændur að hafa á búum sínum viðbragðsáætlun sem tekur til þátta sem mikilvægir eru til að tryggja órofinn búrekstur komi til veikinda. Gera þarf ráð fyrir að afleysingamaður geti gengið inn í dagleg störf án þekkingar á viðkomandi búi eða með aðstoð bónda. Þá skiptir viðbragsáætlun hvers bús höfuðmáli.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur útbúið grunn að viðbragsáætlun fyrir helstu gerðir búrekstrar. Viðbragðsáætlunin er byggð upp með það að markmiði að auðvelda bændum greiningu á lykilþáttum starfseminnar með sniðmáti til að skrá mikilvæga þætti og aðrar nauðsynlegar upplýsingar. Áætlunin miðast einkum við bú sem rekin eru af einyrkjum þar sem aðrir eru lítið inni í daglegum störfum en getur einnig nýst stærri búum þar sem viðbragðsáætlanir eru ekki nú þegar til staðar.

Helstu atriði viðbragsáætlunar taka m.a. til teikninga af gripahúsum þar sem merktir eru inn mikilvægir staðir s.s. rafmagnstafla, vatnsinntök, gjafakerfi, dráttar- og vinnuvélar og hvernig rafstöð skal tengd og ræst, sé hún til staðar. Hnitmiðuð símaskrá búsins flýtir einnig viðbragði. Sniðmát viðbragðsáætlana er alls ekki tæmandi og er ráðlagt að bæta við eins og þurfa þykir.

Við hvetjum bændur innan Dalabyggðar til að skoða leiðbeiningar Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins og huga að viðbragðsáætlunum fyrir bú sín hið fyrsta.

Nánari upplýsingar um gerð viðbragðsáætlunar má finna á heimasíðu ráðgjafamiðstöðvarinnar www.rml.is eða með því að smella HÉR.

Sjá einnig:

COVID-19 og dýr

COVID-19 og matvæli

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei