Ályktun atvinnumálanefndar til RARIK

DalabyggðFréttir

Atvinnumálanefnd Dalabyggðar hefur samþykkt eftirfarandi ályktun og sent út til hlutaðeigandi aðilar:

Atvinnumálanefnd Dalabyggðar skorar á stjórn RARIK að halda áfram öflugum rekstri starfsstöðvar RARIK í Búðardal og frekar styrkja hann en draga úr.

Starfsstöðin í Búðardal hefur sannað gildi sitt í óveðrum þeim sem gengið hafa yfir landið á undan förnum mánuðum. Þjónusta starfsstöðvarinnar er mikilvæg þegar litið er til hitaveitu á svæðinu, vararafstöðvarinnar og spennivikis í Glerárskógum ásamt bilanaleit á línum og viðbragðstíma þegar færð er erfið og leiðir að Dölum lokaðar eins og ósjaldan hefur verið í vetur. Dalabyggð er búsetusvæði sem auðveldlega getur einangrast í slæmri tíð enda umvafið fjallvegum. Á svæðinu er atvinna sem treystir á öruggt dreifikerfi m.a. landbúnaður og úrvinnsla landbúnaðarafurða.

Vill atvinnumálanefnd Dalabyggðar hvetja stjórn RARIK til að halda áfram rekstri vararafstöðvar í Búðardal, hverfa frá áformum um skerta þjónustu frá starfsstöðinni og horfa til þess að starfsmenn starfsstöðvarinnar verði aldrei færri en þrír ásamt verkstjóra.

Að öðru vill nefndin brýna þá nauðsyn að lögð verði ný lína á milli spennuvirkis við Glerárskóga og spennuvirkis við Vogaskeið ofan við Stykkishólm um Skógarströnd til að tryggja afhendingaröryggi ef tenging við Hrútafjörð bregst. Þá verður að halda áfram því verkefni að leggja 3ja fasa tengingu um sveitir Dalabyggðar.

Ályktun þessi er send á stjórn RARIK og stjórnmálamenn ásamt því að hún er gerð opinber.

Virðingarfyllst,
Atvinnumálanefnd Dalabyggðar.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei