Menningarmálanefnd Dalabyggðar ákvað í ljósi aðstæðna, að í stað þess að fresta Jörvagleði 2021 eins og hún leggur sig yrði dagskráinni breytt svo hún stæði aðeins laugardaginn 24. apríl nk. og tæki mið af þeim reglum sem gilda til að Dalamenn (og aðrir) gætu þrátt fyrir allt gert sér glaðan dag og tekið vel á móti sumrinu.
Dagskrá
Kl.11:00 Sumarhlaup UDN
Um viðburðinn: Ungmennasamband Dalamann og Norður Breiðfirðinga stendur fyrir skemmtilegu hlaupi til að hlaupa á móti sumrinu. Hlaupið er um 3km að lengd, hefst og endar að Hlíð í Hörðudal. Þátttakendur eru beðnir um að virða smitvarnir og 2ja metra eða viðhafa grímunotkun þar sem því verður ekki við komið.
Kl.14:00 „Afbragð annarra kvenna“ – Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur fjallar um Auði djúpúðgu á Teams
Um viðburðinn: ,,Þykjast menn varla dæmi til vita að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti. Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna.“ Þannig farast sögumanni Laxdælu orð um ferð Auðar djúpúðgu frá Skotlandi til Íslands í lok níundu aldar. Vilborg segir í máli og myndum sögu Auðar, háskalegri ferðinni með sonarbörnin yfir hafið til landnáms í Dölum, og einnig frá Þorgerði og völvunni Gullbrá á Akri sem örnefni eru kennd við í Skeggjadal.
Slóð á erindið má finna á Facebook-viðburðinum „Jörvagleði 2021“.
Kl.16:00 Dalamaður ársins 2021
Um viðburðinn: Niðurstöður úr kosningu um Dalamann ársins 2021 tilkynntar í beinni útsendingu á Facebook-síðunni: „Sveitarfélagið Dalabyggð“
Kosninguna má finna hérna á heimasíðu Dalabyggðar og Facebook-viðburðinum „Jörvagleði 2021“.
Kl.17:00 Hittum handknattleiksmanninn Björgvin Pál Gústavsson á Teams
Um viðburðinn: Björgvin Páll handknattleiksmaður býður okkur í spjall um markmið og leiðina að góðum árangri í gegnum fjarskiptaforritið Teams. Björgvin verður með smá inngang og svo verður hægt að spyrja hann spurninga og spjalla á eftir. Björgvin Páll lék með íslenska landsliðinu þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Björgvin þekkir vel hvað þarf til að ná góðum árangri. Viðburðurinn er jafnt fyrir unga sem eldri!
Slóð á erindið má finna á Facebook-viðburðinum „Jörvagleði 2021“.
Kl.20:00 Spurningakeppni fjölskyldunnar – Lions með spurningakeppni á Teams.
Um viðburðinn: Lionsklúbbur Búðardals stendur fyrir fjörugri spurningakeppni fyrir alla fjölskylduna. Tilvalið að eiga notalegt kvöld saman.
Slóð á keppnina má finna á Facebook-viðburðinum „Jörvagleði 2021“.
Kl.22:00 Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar Ósk
Um viðburðinn: Björgunarsveitin Ósk verður með flugeldasýningu til að lýsa upp tilveru Dalamanna og bjóða sumarið velkomið. Sýningunni verður skotið upp af gömlu bryggjunni.
Við beinum því til íbúa að safnast ekki saman í hópa, virða 2ja metra regluna eða viðhafa grímunotkun þar sem því verður ekki við komið.