Sauðfjársetur á Ströndum heldur svo sína árlegu Furðuleika í fjórtánda sinn sunnudaginn 2. júlí og hefjast leikarnir kl. 13. Leikarnir eru hefðbundinn lokapunktur á bæjarhátíðinni Hamingjudögum sem haldnir eru á Hólmavík nú um helgina.
Furðuleikarnir snúast um að börn og fullorðnir leiki sér sama í ýmsum skringilegum og skemmtilegum greinum sem eiga sameiginlegt að þær munu aldrei fá viðurkenningu alþjóða Ólympíunefndarinnar.
Meðal keppnisgreina að þessu sinni er t.d. stígvélaþeytingur, öskur, spin-it to win-it, sokkabuxnakeila og fleira. Þá verður sýningargreinin trjónufótbolti sem hefur notið gífurlegra vinsælda undanfarin ár á sínum stað, enda ótrúlega skemmtileg á að horfa.
Alls engar kröfur eru gerðar til keppenda um færni, þol eða fyrri reynslu í íþróttum. Yfirleitt er lítið um verðlaun, önnur en heiðurinn, gleðina og ánægjuna af því að taka þátt. Verðlaun verða þó veitt fyrir bestu frammistöðuna í spin-it to win-it.
Í kaffistofunni verður veglegt kaffihlaðborð á boðstólum á hóflegu verði. Aðgangur að öllum sögusýningum Sauðfjársetursins er ókeypis í tilefni dagsins og sama gildir um Furðuleikana sjálfa.
Sauðfjársetur á Ströndum er safn sem er staðsett í Sævangi, 12 km sunnan við Hólmavík. Þar eru sögusýningar tengdar sauðfjárbúskap og einnig minjagripabúð og kaffistofan Kaffi Kind.