Tilkynning frá Dalabyggð – staðan vegna COVID-19

DalabyggðFréttir

Þróun mála er sú að einstaklingum fækkar enn bæði í sóttkví og einangrun.

Dalabyggð vill hvetja íbúa til að fara að öllu með gát áfram og sinna persónulegum sóttvörnum. Saman komumst við í gegnum þetta.

Munum eftir handþvotti, sprittnotkun og höldum fjarlægð við aðra. Notum grímu þar sem ekki er hægt að virða nándarmörk. Pössum að þrífa algenga snertifleti og ef við þurfum að hósta, gerum það í olnbogabót eða einnota klút/pappír.

Þá er áréttað að einstaklingar hafi samband við heilsugæsluna í Búðardal (sími: 432-1450), Læknavaktina (sími: 1700) eða á netspjalli Heilsuveru ef þeir finna fyrir einkennum eða hafa grun um smit, jafnvel þó viðkomandi sé bólusettur.

Einkenni geta verið: Hósti, hiti, hálssærindi, kvefeinkenni, andþyngsli, bein- og vöðvaverkir, þreyta, kviðverkir, niðurgangur, uppköst, skyndilegt tap á lyktar- og bragðskyni, höfuðverkur.

Það má alls ekki fara í eigin persónu á heilsugæslustöð eða inn á aðrar heilbrigðisstofnanir ef þú ert með einkenni nema hringja fyrst og fá ráð.

Ef þig grunar að einhver í þínu nærumhverfi sé smitaður/smituð: Gættu þess að eiga ekki í nánu samneyti við viðkomandi og ráðlegðu viðkomandi að fara í sýnatöku og einangra sig þar til neikvæð niðurstaða fæst.

Þá hvetur Dalabyggð íbúa til að sækja forritið „Rakning C-19“ í síma sína og gæta þess að það sé virkt.

Upplýsingasíða Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra: www.covid.is Þar má m.a. finna gagnlegar upplýsingar um sýnatöku, sóttkví, smitgát, einangrun, einkenni og almenna líðan.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei