Menntaskóli Borgarfjarðar og Dalabyggð hafa gert með sér samkomulag um að hefja rekstur framhaldsdeildar í Dalabyggð nú í haust og hafa Kolfinna Jóhannesdóttir skólameistari og Sveinn Pálsson sveitarstjóri undirritað samning þess efnis.
Menntaskólinn mun sjá um dreifnámskennslu í framhaldsdeild í Búðardal á komandi skólaári og Dalabyggð leggur til húsnæði og nauðsynlegan búnað.
Jenny Nilson hefur verið ráðin sem umsjónarmaður dreifnámsins. Hún er með BA próf í næringarfræði auk þess að hafa stundað nám í félagssálfræði. Jenny er búsett í Dalabyggð.
Nemendur stunda fjarnám með nútíma samskiptalausnum auk þess að koma þrisvar á önn í Borgarnes í stuttar námslotur. Sjö nemendur hafa þegar skráð sig til náms í Búðardal.
Verkefnið er stutt af Sóknaráætlun Vesturlands.