Laugardaginn 23. júlí kl. 16mun Aðalheiður Guðmundsdóttir halda erindi um ævintýri við Breiðafjörð að Nýp á Skarðsströnd.
Í upphafi erindisins ræðir Aðalheiður almenn einkenni ævintýra, en lítur einkum til þess á hvern hátt íslensk ævintýri skera sig frá ævintýrum annarra Evrópuþjóða. Hlutverki og starfi sagnaþulanna og hvernig fræðimenn hafa leitast við að tengja ævi þeirra og lífshlaup þeim sögum sem þeir tileinka sér og miðla til annarra.
Aðalheiður fjallar um ævintýri sem sögð hafa verið við Breiðafjörð og í Dölum og ekki síst um fólkið sem sagði þau. Aðalheiður skoðar sögur og sagnafólk sem bjó í Dalasýslu, einkum um það leyti sem Jón Árnason stóð að þjóðsagnasöfnun sinni á 19. öld, en einnig fyrir og eftir þann tíma. Spurt verður hvort Dalamenn skera sig frá sem heimildarmenn ævintýra og ef svo er, þá hvers vegna.
Aðalheiður Guðmundsdóttir er íslenskufræðingur og aðjunkt í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hún er jafnframt dóttir síðustu ábúenda á Nýp á Skarðsströnd, en jörðin fór í eyði árið 1972.
Nýpurhyrna stendur fyrir viðburðinum sem og fleirum í sumar.