Á 225. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar , sem haldinn var þann 8. september s.l. var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða.
Afrit af bókuninni hefur verið send til forstjóra og framkvæmdastjórnar Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sem og til alþingismanna NV-kjördæmis.
Sveitarstjórn Dalabyggðar tekur undir beiðni yfirlæknis heilsugæslunnar í Búðardal til framkvæmdastjórnar HVE, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, varðandi nauðsyn þess að endurnýjaður verði búnaður til röntgenrannsókna á stöðinni.
Núverandi búnaður er síðan árið 1997 og því orðið mjög tímabært að endurnýjaður verði þessi nauðsynlegi búnaður sem er að mestu notaður í bráðatilfellum. Núverandi tæki hefur ítrekað bilað og því er það hreint og klárt öryggismál að fá nýtt og fullkomnara tæki.
Það er byggðarlaginu í Dölum og næsta nágrenni afar mikilvægt að búnaður sem þessi sé í lagi og bregðist ekki þegar mest liggur við. Því leggst sveitarstjórn Dalabyggðar á árarnar með Heilsugæslunni í Búðardal og hvetur framkvæmdastjórn HVE og fjárveitingarvald Alþingis til dáða í þeim efnum að gerð verði bragarbót sem allra fyrst í þeim efnum að fá nýtt röntgenrannsóknartæki á Heilsugæsluna í Búðardal.