Íbúar Dalabyggðar blása til sóknar

DalabyggðFréttir

Umsóknarfrestur í frumkvæðissjóð DalaAuðs rann út 30. september síðastliðinn. Er þetta fyrsta árið sem opnað er fyrir umsóknir í frumkvæðissjóðinn.

DalaAuður er verkefni brothættra byggða í Dalabyggð og hóf göngu sína fyrr á árinu. Mikill meðbyr hefur verið með verkefninu síðan það hófst og íbúar sótt vel á fundi þess. Þar hafa þeir lagt vinnu í stefnumótun þar sem kallað er til sóknar í atvinnu- og menningarlífi Dalabyggðar, á sama tíma og kallað er eftir aðgerðum stjórnvalda í innviðauppbyggingu.

Frumkvæðissjóðinum er ætlað að veita innspýtingu í samfélagseflandi verkefni og nýsköpun í byggðarlaginu og eru 12.250.000 krónur í pottinum í þessari úthlutun. Fjöldi innsendra umsókna var framar vonum en alls bárust Frumkvæðissjóði 30 umsóknir. Það er því ljóst að sköpunarkraftur og athafnasemi einkennir samfélagið og að íbúar Dalabyggðar eru tilbúnir að blása til sóknar.

Verkefnisstjórn DalaAuðs mun nú fara yfir og meta innsendar umsóknir og er áætlað að úthluta úr sjóðnum í byrjun nóvember.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei