Ólafsdalshátíð frestað

DalabyggðFréttir

Ólafsdalsfélaginu þykir leitt að tilkynna að vegna  mikilla framkvæmda Minjaverndar hf. við skólahúsið í Ólafsdal  í Gilsfirði verður ekki af sumaropnun félagsins 2023. Vegna framkvæmdanna og ófullnægjandi aðstöðu fyrir undirbúningshóp og gesti hátíðarinnar verður Ólafsdalshátíð 2023 jafnframt felld niður. Ólafsdalsfélagið stefnir á að halda að veglega Ólafsdalshátíð árið 2024.

Starfsemi Ólafsdalsfélagsins, fræðslu- og menningarhlutverk,  verður óskert að öðru leyti.  Er mikill hugur í félaginu að tryggja farsæla endurreisn  Ólafsdals, samfara því að standa vörð um verndun og viðhald þeirra einstöku menningarminja sem þar eru og stuðla að kynningu á þeim.  Ennfremur að standa vörð um einkennandi útlit skólahússins í Ólafsdal.  Ólafsdalur er órofa minjaheild og einstakur sem slíkur á landsvísu eins og fjölmargir sérfræðingar hafa staðfest.  Í þessu samhengi er má vitna í orð Bjarna Guðmundssonar prófessors á Hvanneyri: „Í búnaðarsögulegu tilliti þarf að ganga um Ólafsdal eins og gengið er um Skálholt og Hóla í ljósi kirkjusögunnar.“

Þá minnir félagið á að fornleifauppgröftur á vegum Fornleifastofnunar Íslands mun halda áfram í Ólafsdal sjötta sumarið í röð og fara rannsóknirnar að þessu sinni fram í fyrri hluta ágústmánaðar. Þar eru sífellt að koma í ljós nýjar byggingar frá landnámstíð,  aðeins um 1 km  sunnan við skólahúsið. Góður styrkur fékkst úr Fornminjasjóði til verksins.  Sjá nánar á facebook.com/fornleifastofnunislands

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei