Nær 11 milljónir til 11 atvinnu- og nýsköpunarverkefna

DalabyggðFréttir

Í dag úthlutaði Uppbyggingarsjóður Vesturlands tæpum 11 milljónum til 11 atvinnu- og nýsköpunarverkefna. 

Úthlutunin fór fram í Menntaskóla Borgarfjarðar og var hluti af dagskrá frumkvöðla- og fyrirtækjamótsins „Nýsköpun í vestri“ sem er samstarfsverkefni Gleipnis, nýsköpunar- og þróunarseturs á Vesturlandi, Nývest, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og er styrkt af Sóknaráætlun Vesturlands. Nýsköpun í vestri byrjaði í morgun kl. 10 og lýkur síðdegis. Dagskráin er blanda af fræðslu, vinnustofum, reynslusögum og tengslamyndun ásamt úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Nýsköpun í vestri var opið öllum þeim sem hafa áhuga á nýsköpun og frumkvöðlastarfi, umhverfismálum og sjálfbærni og var skráning framar öllum vonum en um 50 manns mættu.

Við úthlutunina kynntu Páll S. Brynjarsson og Svala Svavarsdóttir Sóknaráætlun Vesturlands og Uppbyggingarsjóðinn en tilgangur sjóðsins er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Vesturlandi. Sjóðurinn úthlutar einu sinni á ári til menningarverkefna en tvisvar á ári til atvinnu- og nýsköpunarverkefna. Alls bárust 23 umsóknir að þessu sinni og hlutu 11 verkefni styrk og alls var úthlutað 10.650.000 kr. Ólöf Guðmundsdóttir og Helga Guðjónsdóttir atvinnuráðgjafar SSV kynntu verkefnin og afhentu styrkhöfum viðurkenningarskjöl.

Það verður spennandi að fylgjast með framgangi þessara flottu verkefna.

Verkefnin sem hlutu styrki voru: 

Forverkun og vinnsla þara af Skipaskaga / ALGÓ ehf. / 1.500.000

Prótein möns – millimál / Grímstaðarkét ehf. / 1.500.000

Þararannsóknarverkefni / Breið-Þróunarfélag ses. / 1.100.000

STEAM námsvistkerfi / Creatrix ehf. / 1.000.000

Tindanáma á Skarðsstönd / Tak ehf. / 1.000.000

Skógarplöntuframleiðsla í Dölum / Hólshlíð ehf. / 900.000

Sælkerabíll um Snæfellsnes / Svæðisgarður Snæfellsness ses. / 800.000

Markaðssetning vara úr héraði / Hrafnfífa ehf. / 800.000

Markaðs- og viðskiptaplan / Berserkir og Valkyrjur ehf. / 800.000

Matarsmiðja á Hvanneyri / Gleipnir, nýsköpunar- og þróunarsetur á Vesturlandi ses. / 750.000

Snæfellsnes Adventure ehf. / Snæfellsnes adventure ehf. / 500.000

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei