Gaman saman í Dölunum

SveitarstjóriFréttir

Bæjarhátíðin “Heim í Búðardal” er haldin núna um helgina, dagana 5. til 7. júlí og má sjá fjölbreytta dagskrá inn á „Heim í Búðardal 2024“ á facebook. Þessa sömu daga er haldinn mjög svo áhugaverður viðburður að Eiríksstöðum, „Eldhátíð að Eiríksstöðum“ (Past in flames), sem einnig er hægt að finna á facebook undir “Eldhátíð að Eiríksstöðum”.

Það er mikilvægt að hafa í huga að ekkert í líkingu við þessa viðburði gerist af sjálfu sér. Það er því afar virðingarverð öll sú vinna sem lögð hefur verið í undirbúning þessara tveggja viðamiklu viðburða og vil ég koma á framfæri þökkum til allra hlutaðeigandi fyrir fórnfúsa vinnu við undirbúning um leið og ég óska öllum sem að koma góðs gengis um helgina.

Ég vil hvetja ykkur kæru vinir til þess að kíkja til okkar í Dalina um helgina því Dalamenn eru þekktir fyrir gestrisni sína. Dagskráin inn í Búðardal er að töluverðu leiti sniðin að börnum og ungmennum en einnig má nefna markað sem haldinn verður í Dalabúð þar sem ýmsir framleiðendur bjóða gæða vörur til sölu. Margt annað væri vert að nefna en ég bendi aftur á samfélagsmiðla þar sem dagskráin viðamikla er aðgengileg. Að Eiríksstöðum verður leikið sér að eldinum í orðsins fyllstu merkingu af staðarhöldurum og sérfræðingum sem koma víða að úr heiminum.

Í Dalabyggð eru vegirnir ekki góðir eins og “sumum” ætti að vera kunnugt um og hvetjum við alla sem um þá fara að fara að öllu með gát þegar þið rennið til okkar um helgina.

En kæru vinir, við getum aftur á móti svo sannarlega státað okkur af góðu og harðduglegu samfélagi hér í Dölunum sem tekur vel á móti gestum þessa helgi sem og alla aðra daga.

Sjáumst í Dölunum kæru vinir og höfum gaman saman !

Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei