Sveitarstjórn Dalabyggðar þáði nýverið boð Ingibjargar Valgeirsdóttur sveitarstjóra Strandabyggðar um að koma til fundar við sveitarstjórn Strandabyggðar ásamt sveitarstjórnum Reykhólahrepps, Kaldrananeshrepps og Árneshrepps.
Fundurinn var haldinn mánudagskvöldið 23. apríl í Hnyðju, nýjum fundarsal og móttöku Strandabyggðar á neðstu hæð Þróunarsetursins á Hólmavík.
Tilgangur fundarins var að ræða möguleika á aukinni samvinnu þessara sveitarfélaga ásamt sameiginlegum hagsmunamálum, m.a. starfsemi og þjónustu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, áformaða fækkun sýslumannsembætta, löggæslumál og fyrirhugaða stofnun framhaldsdeildar á Hólmavík. En Strandabyggð hefur sent inn umsókn til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins um stofnun framhaldsdeildar á Hólmavík sem gert er ráð fyrir að hefji starfsemi haustið 2013.
Sveitarstjórn Dalabyggðar þakkar Strandabyggð boðið en fundurinn var vel sóttur og áttu fundarmenn góðar samræður og voru sammála um að vinna að því að efla samstarf milli þessara sveitarfélaga.
- Var efni síðunnar hjálplegt?
- JáNei