Ábending til rekstraraðila vegna sorphirðu

DalabyggðFréttir

Í byrjun árs tók Íslenska gámafélagið við sorphirðu í Dalabyggð. Við þessa breytingu voru meðal annars grenndargámar í dreifbýli fjarlægðir, grenndarstöðvar settar upp í staðin og þriggja tunnu kerfi innleitt á heimilum í sveitarfélaginu.

Grenndarstöðvarnar eru eingöngu ætlaðar heimilisúrgangi frá frístundahúsum í sveitarfélaginu og greiða eigendur þeirra sorphirðugjald fyrir þá þjónustu. Vegna þessa þurfa rekstraraðilar sjálfir að hafa samband við sorphirðufyrirtæki og gera samning við það um sorphirðu frá sínum rekstri. Einnig geta fyrirtæki nýtt sér þjónustu endurvinnslustöðvar sveitarfélagsins að Vesturbraut 22. Losun á gjaldskyldum úrgangi er innheimt með sölu klippikorta sem fást á staðnum.

Með flokkun sorps tökum við þátt í því að draga úr ágengni á náttúru og losun gróðurhúsalofttegunda með það að leiðarljósi að tryggja lífskjör íbúa í Dalabyggð og þátttöku samfélagsins í hringrásarhagkerfinu.

Því viljum við hvetja þá rekstraraðila í sveitarfélaginu sem ekki hafa gert það nú þegar, til að hafa samband við sorphirðufyrirtæki, ganga frá samningum um sorphirðu og leggja þannig sitt af mörkum í umhverfisvernd og ábyrgum fyrirtækjarekstri í Dalabyggð. Við bendum á að í samningi Dalabyggðar við Íslenska gámafélagið er skuldbinding fyrirtækisins til að bjóða rekstraraðilum í sveitarfélaginu þjónustu vegna sorphirðu.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei