Laugardaginn 24. apríl sl. var haldin Jörvagleði 2021.
Gleðin var vissulega með öðru sniði en venjulega þar sem flestir viðburðir fóru fram með aðstoð tækinnar en má segja að allt hafi þetta gengið vel fyrir sig.
Um morguninn var UDN með sumarhlaup í Hlíð í Hörðudal og veðrið var einstaklega gott fyrir þátttakendur.
Þá var Vilborg Davíðsdóttir með erindi um ferð Auðar djúpúðgu frá Skotlandi til Íslands í lok níundu aldar, landnám hennar í Dölum, og einnig frá Þorgerði og völvunni Gullbrá á Akri sem örnefni eru kennd við í Skeggjadal. Þar sköpuðust einstaklega skemmtilegar umræður meðal þátttakenda.
Menningarmálanefnd Dalabyggðar hafði staðið fyrir tilnefningu um Dalamann ársins dagana á undan og var þátttaka einstaklega góð þar sem fjölmargir fengu tilnefningar og jákvæðan rökstuðning fyrir valinu. Það var svo Bragi Þór Gíslason sem hlaut viðurkenninguna Dalamaður ársins 2021 og óskum við honum til hamingju.
Björgvin Páll Gústavsson var með erindi um árangur, markmiðasetningu, leiðir til að temja sér vana og rútínur ásamt því að hann fór yfir ýmis atriði sem hafa hjálpað honum í gegnum tíðina. Það var einstaklega fróðlegt að eiga þetta samtal við Björgvin.
Um kvöldið stóð Lionsklúbbur Búðardals fyrir spurningakeppni fjölskyldunnar þar sem skapaðist frábær stemming og skemmtu þátttakendur sér vel við að svara spurningum um hin ýmsu málefni.
Gleðinni lauk svo á flugeldasýningu sem Björgunarsveitin Ósk sá um. Sýningin var hin glæsilegasta og íbúar til fyrirmyndar með að forðast hópamyndanir á meðan þeir nutu hennar.
Sendum við kærar þakkir til allra sem komu að gleðinni og íbúum fyrir þátttökuna.
Eins og vill oft verða þegar taka þarf upp nýtt verklag á stuttum tíma voru vissulega ábendingar sem komu fram um hvernig mætti bæta það og verða þær hafðar til hliðsjónar við næstu viðburði. Það er svo von okkar að hægt verði að bjóða íbúum upp á viðburði í raunheimum sem fyrst.
Gleðilegt sumar!