Ályktun vegna stöðvunar grásleppuveiða

DalabyggðFréttir

Þann 30.apríl s.l. undirritaði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, reglugerð um stöðvun veiða á grásleppu á þessu fiskveiðiári.
Atvinnumálanefnd Dalabyggðar tók málið fyrir á 16.fundi sínum þann 5.maí s.l. og sendi að honum loknum ályktun til byggðarráðs.
Byggðarráð hélt svo 245.fund sinn 7.maí s.l. þar sem samþykkt var ályktun sem hefur verið send á ráðherra, þingmenn og Hafrannsóknarstofnun.

„Byggðarráð Dalabyggðar mótmælir harðlega ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að stöðva fyrirvaralaust grásleppuveiðar við landið.

Ákvörðun ráðherra kemur mjög illa við Dalabyggð. Í sveitarfélaginu er starfandi fiskvinnslufyrirtækið Sæfrost ehf. sem hefur haft starfsemi af frystingu grásleppu og söltun hrogna.

Sem dæmi um umfang var Sæfrost í Búðardal næst stærst í vinnslu grásleppu á landsvísu á síðasta ári með á sjötta hundrað tonn. Undanfarin ár hefur vinnslan tryggt atvinnu í um 5 mánuði ár hvert og til stóð að í það minnsta 10 manns hefðu atvinnu þar í sumar. Fyrirtækið er með tryggar sölur á bæði vottuðum og óvottuðum hrognum.

Í fámennu samfélagi þar sem atvinna er fábrotin munar um hvert starf. Nú stefnir í a.m.k. 75% minni vinnslu hjá Sæfrosti ehf. ef staðið verður við stöðvun veiða. Á sama tíma hafa ýmsar atvinnugreinar í Dalabyggð orðið fyrir verulegum búsifjum vegna COVID-19 faraldursins og ekki er séð hvaða atvinnugrein geti gripið þá aðila sem annars hefðu starfað við frystingu og söltun. Grásleppuveiðar eru ekki búbót heldur atvinna sem margar fjölskyldur reiða sig á og hafa gert til fjölda ára.

Dalabyggð leggur áherslu á að málið snýst um að halda störfum og rekstri fyrirtækis í sveitarfélaginu og hefur ekki síður áhrif á nágrannasveitarfélög Dalabyggðar eins og t.d. kemur fram í ályktun frá Stykkishólmsbæ þann 6. maí sl.. Nú sem aldrei fyrr þarf samfélagið stuðning opinberra stofnana til að takast á við þær fordæmalausu aðstæður sem nú eru og skoða verður allar leiðir til að koma í veg fyrir frekara tjón.

Til að vernda æðarvarp á svæðinu hefur tíðkast í áratugi að grásleppuveiðar við Breiðafjörð hefjist ekki fyrr en 20. maí ár hvert. Dagarnir fimmtán sem veiða má við Breiðafjörð frá og með 20. maí bæta ekki upp þá 44 daga sem sjómenn gerðu ráð fyrir að geta gert út. Einnig er óljóst hvort að allir munu fá að veiða í 15 daga eða lokað verði á veiðar þegar ákveðnum afla er náð. Það er óviðunandi með öllu að grásleppusjómenn á innanverðum Breiðafirði, sem fara síðastir af stað, lendi í því að bíða í von og óvon eftir því hvernig veiðin gangi á öðrum svæðum.

Bent hefur verið á að mikil grásleppugengd og afli við Norðurland bendi til að stofnin sé stærri en Hafrannsóknastofnun gerir ráð fyrir í sinni ráðgjöf. Stofnvísitala grásleppu vex milli mælinga og engin vísindaleg gögn hafa komið fram um að stofnstærð grásleppu standi ekki undir þeirri nýtingu sem fyrri viðmiðunargildi ráðgjafarreglu gerðu ráð fyrir. Full ástæða er til að setja spurningamerki við uppreikning á tunnumagni fyrri ára sem leiddi til skerðingar á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar á leyfilegu heildaraflamarki í ár

Byggðarráð Dalabyggðar skorar á Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurskoða heimild til grásleppuveiða á innanverðum Breiðafirði og fjölga veiðidögum þar til samræmis við áður gildandi reglugerð. Jafnframt er skorað á Alþingi að endurskoða strax núverandi fyrirkomulag á grásleppuveiðum þannig að þessi staða geti ekki komið upp aftur.“

Tilkynning um breytingu á reglugerð um veiðar á grásleppu 2020

Fundargerð 245.fundar byggðarráðs Dalabyggðar.

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei